XIV. kafli. Vinnudeilusjóður

49. gr. 


Samtök atvinnulífsins starfrækja vinnudeilusjóð sem aðildarfyrirtækjum SA ber að greiða iðgjald til. Vinnudeilusjóður er eign SA.


Vinnudeilusjóður hefur það hlutverk að efla samstöðu aðildarfyrirtækja SA ef kemur til átaka á vinnumarkaði. Meginhlutverk sjóðsins er að styðja við stefnumörkun SA í kjaramálum með því að greiða bætur til aðildarfyrirtækja í kjaradeilum sem hafa verulega þýðingu fyrir heildarhagsmuni atvinnurekenda.


Aðildarfyrirtæki í þjónustudeild samtakanna, sbr. 5. gr., geta ekki átt aðild að sjóðnum.

 

50. gr. 


Stjórn vinnudeilusjóðs skipa þrír menn. Skulu þeir kjörnir til árs í senn á fyrsta fundi stjórnar SA eftir aðalfund. Framkvæmdastjóri samtakanna er jafnframt framkvæmdastjóri vinnudeilusjóðs.

Stjórn vinnudeilusjóðs stýrir fjárreiðum hans og ákveður greiðslu bóta til aðildarfyrirtækja í samræmi við ákvæði samþykkta þessara og reglna sem settar eru skv. þeim.

 

51. gr. 


Tekjur vinnudeilusjóðs eru:

  1. Fjármunatekjur af eignum sjóðsins.
  2.  Aðrar tekjur, þar á meðal af yfirteknum skaðabótakröfum, sbr. 6. mgr. 53. gr.
  3. Iðgjöld aðildarfyrirtækja samtakanna.

Reikningar sjóðsins skulu lagðir fyrir aðalfund á sama hátt og reikningar samtakanna.

52. gr.


Aðildarfyrirtæki samtakanna geta sótt um bætur úr vinnudeilusjóði ef stöðvun verður á atvinnurekstri þeirra að hluta eða öllu leyti af völdum verkfalls sem boðað er af stéttarfélögum starfsmanna. Sama gildir um stöðvun atvinnurekstrar af völdum verkbanns á starfsmenn aðildarfyrirtækis enda sé það lagt á af SA eða með samþykki þeirra og í samræmi við ákvæði samþykkta þessara. Þá er sjóðnum heimilt að greiða bætur vegna ólögmætra vinnustöðvana starfsmanna.

Bætur miðast við greidd árgjöld til sjóðsins og fyrst til frá og með öðru ári aðildar. Þá nemur hann 1/3 af fullum, 2/3 á næsta ári og hámarksbætur frá og með fjórða ári. 

Fyrstu þrír dagar vinnustöðvunar eru á eigin áhættu félagsmanna og greiðast að jafnaði engar bætur vegna þess tíma. Bætur greiðast frá og með fjórða degi sem starfsemi liggur niðri af völdum vinnustöðvunar. Taki boðuð vinnustöðvun til meira en þriðjungs starfsmanna aðildarfyrirtækja SA getur framkvæmdastjórn samtakanna þó lengt tímabil sjálfsáhættu skv. framanskráðu um allt að eina viku.

Sjóðsstjórn er heimilt að víkja frá ákvæðum 1. -3. mgr. ef sérstaklega stendur á, og deila sú sem vinnustöðvun hefur valdið er talin hafa verulega þýðingu fyrir heildarhagsmuni atvinnurekenda.  Þá er einnig heimilt að víkja frá sömu ákvæðum ef vinnustöðvunin er ólögmæt enda tekur sjóðurinn þá við öllum skaðabótakröfum á hendur þeim er tjóninu olli.

Stjórn vinnudeilusjóðs getur ákveðið uppgjörstímabil vegna greiðslna úr vinnudeilusjóði allt að sex mánuði í senn og greiðast bætur þá út innan 15 daga frá lokum uppgjörstímabils. Fullnaðaruppgjör gagnvart einstökum fyrirtækjum getur þó fyrst farið fram þegar tjónsuppgjör skv. 5. mgr. 53. gr. liggur fyrir. Séu vinnustöðvanir það umfangsmiklar að fyrirséð er að svo gangi á höfuðstól sjóðsins að hann fari undir lágmarksstöðu skv. 54. gr. er sjóðsstjórn heimilt að skerða bótagreiðslur svo rýrnun sjóðsins komi ekki misjafnlega niður á þeim aðildarfyrirtækjum sem fyrir tjóni verða. Skulu þá allar bótagreiðslur á yfirstandandi bótatímabili lækkaðar um sama hundraðshluta

53. gr.



Bætur hvers aðildarfyrirtækis miðast við heildarlaunagreiðslur eins og þær reiknast skv. greiddum iðgjöldum til vinnudeilusjóðs á næstliðnu ári. Falli öll starfsemi fyrirtækis niður af völdum bótaskyldrar vinnustöðvunar greiðist sem svarar 50% af þannig reiknuðum heildarlaunagreiðslum. Tjónabætur miðast við að hver vinnustöðvunardagur teljist 1/360 hluti af heildarlaunagreiðslum ársins eins og þær eru skilgreindar í samþykktum þessum. Bætur greiðast frá og með fjórða degi sem vinna liggur niðri af völdum vinnustöðvunar og alla daga þar til vinnustöðvun lýkur og miðast við fjölda þeirra og hlutfall sem vinnustöðvun sannanlega tekur til.

Nú tekur vinnustöðvun einungis til hluta starfsmanna og greiðast bætur þá í hlutfalli við fjölda þeirra sem leggja niður störf af heildarfjölda starfsmanna.

Þegar um ólögmætar vinnustöðvanir er að ræða getur stjórn vinnudeilusjóðs ákveðið að greiða bætur umfram það sem kveðið er á um í 2. mgr. þessarar greinar. Á það einnig við ef vinnustöðvun hefur verið gerð hjá fáum atvinnurekendum með það að markmiði að ná fram kjarasamningum við atvinnurekendur í heild og telja verður að deila sú sem vinnustöðvun hefur valdið hafi verulega þýðingu fyrir heildarhagsmuni atvinnurekenda.

Heildarbætur mega aldrei nema hærri upphæð en því sem samsvarar sannanlega beinu tjóni umsækjanda vegna viðkomandi vinnustöðvunar.

Umsókn um bætur úr vinnudeilusjóði skulu sendar skrifstofu SA og með þeim upplýsingum sem stjórn sjóðsins gerir kröfu um eigi síðar en 30 dögum eftir að vinnustöðvun lýkur. 

Umsækjandi framselur vinnudeilusjóði ódæmdar bótakröfur vegna vinnustöðvunar. Ákvörðun um innheimtu kröfu og málshöfðun á hendur bótaskyldum aðila er alfarið í höndum stjórnar vinnudeilusjóðs. Ef meira innheimtist hjá bótaskyldum aðila en nemur bótum og kostnaði vinnudeilusjóðs greiðist hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki umframfjárhæð til greiðslu tjóns að því marki sem eftirstöðvar innheimtra bóta hrökkva til.

Það er skilyrði bótagreiðslna úr vinnudeilusjóði að hlutaðeigandi fyrirtæki virði öll ákvæði samþykkta SA um allt það er lýtur að vinnudeilum og samningum. Brot á ákvæðum samþykktanna eða fyrirmælum og ákvörðunum skv. þeim varðar sviptingu bóta og endurkröfu ef áður hefur verið greitt vegna hlutaðeigandi vinnudeilu.

Eigi má greiða bætur úr sjóðnum ef:

  1. Umsækjandi hefur verið meðlimur samtakanna skemur en sex mánuði.
  2. Umsækjandi skuldar árgjöld frá fyrri árum er vinnustöðvun hefst.
  3. Umsækjandi eða aðildarfélag hans hefur sagt sig úr samtökunum.
  4. Vinnustöðvun er að mati framkvæmdastjórnar SA alfarið á ábyrgð umsækjanda..

Tilkynna ber skrifstofu SA án tafar um vinnustöðvun ef ætla má að hún geti valdið vinnudeilusjóðnum útgjöldum.

 

54. gr.


Óheimilt er að skerða höfuðstól sjóðsins niður fyrir 1,5% af heildarlaunagreiðslum aðildarfyrirtækja samtakanna. Þó er heimilt að greiða bætur úr sjóðnum þrátt fyrir að höfuðstóll hans fari niður fyrir sett lágmark ef stjórn sjóðsins áætlar að sjóðurinn nái aftur lágmarksstærð á ásættanlegum tíma.

Ef vinnustöðvun hefur verið gerð hjá fáum atvinnurekendum með það að markmiði að ná fram kjarasamningum við atvinnurekendur í heild og telja verður að vinnudeilan geti haft verulega þýðingu fyrir heildarhagsmuni atvinnurekenda, er stjórn vinnudeilusjóðs heimilt, að fengnu samþykki framkvæmdastjórnar SA, að víkja frá ákvæði 1. mgr. við ákvörðun bótagreiðslna.

Vinnudeilusjóður tekur þátt í kostnaði við innheimtu iðgjalda og skal hann jafnframt greiða eðlilegt endurgjald vegna umsýslu með sjóðinn. Stjórn sjóðsins og framkvæmdastjórn skulu semja um þessar greiðslur.

Stjórn SA er heimilt, í samráði við stjórn vinnudeilusjóðs, að ákvarða greiðslu úr vinnudeilusjóði til réttarverndarsjóðs, sem starfar skv. XV. kafla samþykkta SA.

Heimilt er aðildarfélögum og einstökum fyrirtækjum innan samtakanna að skjóta ákvörðunum stjórnar vinnudeilusjóðs til endanlegs úrskurðar framkvæmdastjórnar SA.

Verði vinnudeilusjóður lagður niður renna eignir hans til rekstrarsjóðs SA.

 

Stjórn SA er heimilt, í samráði við stjórn vinnudeilusjóðs, að ákvarða greiðslu úr vinnudeilusjóði til réttarverndarsjóðs, sem starfar skv. XV. kafla samþykkta SA.