IV. kafli. Árgjöld

10. gr. 


Starfsár samtakanna og reikningsár er almanaksárið.


11. gr. 

Aðalfundur ákveður árlega árgjald til samtakanna og iðgjald til vinnudeilusjóðs, sbr. 53. gr. samþykkta þessara, og gildir sú ákvörðun frá upphafi næsta árs. Gjöld þessi reiknast af heildarlaunagreiðslum næstliðins árs og gildir það einnig um launagreiðslur stjórnenda fyrirtækja. Frá og með árinu 2005 er árgjald 0,17% og iðgjald til vinnudeilusjóðs 0,02%, eða samtals 0,19% af framangreindum stofni.

Framkvæmdastjórn SA ákvarðar lágmarksárgjald fyrir hvert ár. Gjaldið skal endurskoðað árlega með hliðsjón af launaþróun. Lágmarksárgjald á árinu 2021 er 32.000 kr. 

Þrátt fyrir framanritað er óskylt að greiða hærra árgjald en sem svarar 0,067% af rekstrartekjum liðins árs og er þá iðgjald til vinnudeilusjóðs SA innifalið. Aðildarfyrirtæki, sem vilja nýta sér þessa heimild, skulu senda fullnægjandi gögn því til stuðnings innan 30 daga frá því árgjaldið er endanlega ákveðið.

Fjárhæðamörk stærðarafsláttar, þ.e. stigvaxandi afsláttar af álögðum árgjöldum, verða  eftirfarandi á árinu 2021:

Álögð félagsgjöld

Afsláttur

                    0 - 2.900.000 

0%

       2.900.000 - 5.800.000 

5%

       5.800.000 - 8.800.000

10%

       8.800.000 og yfir

15%

Afslátturinn reiknast af álögðum árgjöldum í hverju fjárhæðabili. Séu álögð árgjöld t.d. 7,0 m.kr. þá reiknast enginn afsláttur af fyrstu 2,9 m.kr., 5% eða 145.000 kr. afsláttur reiknast af bilinu 2,9 - 5,8 m.kr. og 10% eða 120.000 kr. afsláttur reiknast af þeirri 1,2 m.kr. sem er á bilinu 5,8 – 7,0 m.kr. Afslátturinn verður því 265.000 kr. (145.000 plús 120.000) samkvæmt reglunni í þessu tilviki.

Móðurfélag og dótturfélög þess geta óskað þess að afsláttur verði reiknaður miðað við samanlögð árgjöld allra fyrirtækjanna.

Framkvæmdastjórn SA endurskoðar fjárhæðarmörk afsláttarins árlega með hliðsjón af þróun heildarlaunagreiðslna í atvinnulífinu.


12. gr. 


Árgjöld og iðgjöld til vinnudeilusjóðs SA skulu innheimt í einu lagi og skiptast milli rekstrar og vinnudeilusjóðs í réttu hlutfalli eftir því sem gjöldin eru ákveðin hverju sinni í 1. mgr. 11. gr. og skv. 51. gr. samþykkta þessara. Ákvæði kafla þessa gilda einnig um iðgjöld til vinnudeilusjóðs, eftir því sem við á.

 

13. gr. 


Árgjöld skulu innheimt ársfjórðungslega með gjalddögum 15. febrúar, 15. maí, 15. ágúst og 15. nóvember, en eindaga mánuði eftir gjalddaga.

Heimilt er að innheimta lágmarksárgjald skv. 2. mgr. 11. gr. í einu lagi, með gjalddaga 15. maí.

Heimilt er að innheimta þrjá fyrstu ársfjórðunga hvers árs samkvæmt áætlun, ef upplýsingar um heildarlaunagreiðslur síðastliðins árs liggja þá ekki fyrir. Við innheimtu síðasta ársfjórðungs skulu árgjöld vera endanlega útreiknuð skv. upplýsingum um iðgjaldsstofn. Hafi ársfjórðungsgreiðslur verið of- eða vanáætlaðar á fyrri gjalddögum ársins skal það leiðrétt við innheimtu árgjalds vegna síðasta ársfjórðungs.

 

14. gr. 


Ef ársfjórðungsgjaldið er ekki greitt á eindaga er heimilt að reikna dráttarvexti frá gjalddaga.

 

15. gr. 


Samtök atvinnulífsins reikna út árgjöld hvers aðildarfyrirtækis og innheimta gjöldin. Heimilt er að fela aðildarfélögum innheimtu gjalda en jafnframt getur skrifstofan tekið að sér innheimtu árgjalda aðildarfélaga.

 

16. gr. 


Nýir félagar greiða árgjald frá og með þeim ársfjórðungi sem er að líða þegar þeir eru teknir í samtökin.

Ef fyrirtæki er nýstofnað skal áætla árgjaldið fyrirfram fyrir árið.

Þeir sem segja sig úr samtökunum eða aðildarfélögum þeirra greiða árgjald til þeirra áramóta þegar þeir ganga út, en hætti fyrirtæki starfsemi á árinu greiðir það árgjald til loka þess ársfjórðungs er skrifstofu samtakanna er tilkynnt að fyrirtæki sé hætt starfsemi. Þegar um brottvikningu er að ræða skal greiða árgjald til loka þess ársfjórðungs er brottvikning fer fram.

 

17. gr. 


Aðildarfélög og fyrirtæki bera ekki ábyrgð á skuldbindingum samtakanna umfram það er leiðir af ákvæðum kafla þessa.

 

18. gr. 


Atvinnurekendur í þjónustudeild samtakanna greiða sama árgjald og önnur aðildarfyrirtæki en greiða ekki iðgjöld til vinnudeilusjóðs.