II. kafli. Aðild að samtökunum

3. gr. 


Félög, sjálfseignarstofnanir og einstaklingar sem stunda atvinnurekstur öðlast beina aðild að Samtökum atvinnulífsins með inngöngu í aðildarfélag innan SA. Aðildarfélög SA eru:

Samorka

Samtök ferðaþjónustunnar

Samtök fjármálafyrirtækja

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

Samtök iðnaðarins

Samtök verslunar og þjónustu



Félag atvinnurekenda getur gerst aðildarfélag Samtaka atvinnulífsins enda hafi það hliðstæðan tilgang og SA, þjónusti aðildarfyrirtæki og hafi heimild til að skuldbinda aðildarfyrirtæki til aðildar skv. samþykktum þessum. Umsókn atvinnugreinafélags um aðild að SA skal send stjórn samtakanna ásamt þeim upplýsingum um félagið og aðildarfyrirtæki þess sem stjórn SA ákveður. Inntökubeiðni telst samþykkt ef meirihluti stjórnar er henni samþykkur.


4. gr. 


Með aðild að Samtökum atvinnulífsins fela aðildarfyrirtækin samtökunum umboð til að fara með gerð kjarasamninga og ákvarðanir um vinnustöðvanir, sbr. XII. og XIII. kafla samþykkta þessara, sbr. þó ákvæði 5. gr. um fyrirtæki í þjónustudeild samtakanna.

Með inngöngu í SA skuldbinda aðildarfélög og einstök fyrirtæki sig til að hlíta ákvæðum samþykkta þessara svo og ákvörðunum sem á þeim byggjast.

Þar sem rætt er um aðildarfyrirtæki í samþykktum þessum er átt við félög, sjálfseignarstofnanir og einstaklinga í atvinnurekstri.

Fyrirtæki velur aðild að atvinnugreinafélagi eftir því sem samþykktir þeirra leyfa. Aðildarfélög taka sjálf afstöðu til aðildarumsókna. Við það er miðað að fyrirtæki gangi í heild sinni í SA en því er heimilt að skipta félagsaðild milli aðildarfélaga. Umsókn skulu fylgja upplýsingar um stjórn, stjórnendur, starfssvið, heildarlaunagreiðslur og veltu. Sé fyrirtæki bundið af kjarasamningi, öðrum en þeim sem SA eiga aðild að, skal afrit hans fylgja aðildarumsókn.

Í samþykktum og á umsóknareyðublöðum einstakra aðildarfélaga skal koma fram að félagið og félagsmenn þess eigi aðild að Samtökum atvinnulífsins. Umsækjandi skal taka fram ef hann óskar einvörðungu eftir aðild að þjónustudeild samtakanna.

Upplýsingar um nýja félaga og aðrar breytingar á félagaskrá skulu jafnharðan sendar skrifstofu SA.

Enginn getur átt aðild að samtökunum né komið fram fyrir hönd aðildarfyrirtækis gagnvart samtökunum ef hann er félagi í stéttarfélagi.

5. gr. 


Innan samtakanna er starfandi sérstök þjónustudeild fyrir þau aðildarfyrirtæki sem óska eftir annarri þjónustu samtakanna en gerð kjarasamninga fyrir þeirra hönd. Fyrirtækið tekur þá þátt í annarri starfsemi SA og hlutaðeigandi aðildarfélags en þeirri er lýtur að gerð kjarasamninga. Fyrirtæki í þessari deild framselja ekki samtökunum umboð til að gera kjarasamninga fyrir sína hönd og verða ekki bundin af ákvæðum slíkra samninga umfram önnur fyrirtæki sem standa utan samtakanna. Fyrirtæki í þjónustudeild teljast ekki félagsmenn í samtökunum í merkingu vinnulöggjafar og hafa ekki atkvæðisrétt um kjarasamninga og verkbönn.


6. gr. 


Aðilum að samtökunum er heimilt að hafa með sér staðbundin félög er hafi einkum það markmið að vinna að sérhagsmunamálum atvinnurekenda á viðkomandi svæði.


7. gr. 


Heimilt er skrifstofu samtakanna að afla upplýsinga um heildarlaunagreiðslur og rekstrartekjur aðildarfyrirtækja, svo og annarra þeirra upplýsinga sem samtökin kunna að þurfa á að halda vegna starfsemi sinnar.

Starfsmönnum samtakanna skal skylt að gæta fyllstu þagmælsku um einstök atriði er fram koma í slíkum skýrslum, en heimilt er að nota þær til úrvinnslu frekari gagna.