XIII. kafli. Vinnustöðvanir
44. gr.
Nú verður vinnustöðvun hjá einhverju aðilarfyrirtækja samtakanna og skal það þá þegar tilkynna það til skrifstofu samtakanna. Ber þá starfsmönnum SA, framkvæmdastjórn og stjórn að gera allt sem unnt er til þess að vernda hagsmuni þess meðlims er vinnustöðvunin bitnar á.
45. gr.
Um ákvörðun verkbanns fer samkvæmt ákvæðum 15. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. SA eru félag atvinnurekenda í skilningi þeirra laga, enda eiga aðildarfyrirtækin beina aðild að samtökunum, sbr. 4. gr. samþykkta þessara.
Stjórn SA getur ákveðið að láta fara fram atkvæðagreiðslu um verkbann meðal félagsmanna. Í tillögu stjórnar skal koma fram hversu víðtækt verkbannið skuli vera og hvenær því er ætlað að koma til framkvæmda. Heimilt er stjórn að einskorða atkvæðagreiðslu við þau fyrirtæki sem verkbanni er ætlað að taka til. Við atkvæðagreiðslu um verkbann ræður fjöldi atkvæða skv. gildandi atkvæðaskrá, sbr. 19. gr. samþykkta þessara.
Stjórn SA getur heimilað aðildarfélögum samtakanna og atvinnurekendum innan þeirra að leggja á verkbann. Atkvæðaréttur fer skv. gildandi atkvæðaskrá samtakanna en stjórnin getur heimilað að atkvæðagreiðsla fari fram skv. félagslögum viðkomandi aðildarfélags, eða án atkvæðagreiðslu, ef einstök aðildarfyrirtæki eiga í hlut.
Framkvæmdastjórn ákveður hvort viðhafa skuli póstatkvæðagreiðslu eða greiða atkvæði á kjörfundi og setur nánari reglur um framkvæmd atkvæðagreiðslu.
Framkvæmdastjórn, eða þeim sem hún tilnefnir, er heimilt að aflýsa eða fresta boðuðu eða yfirstandandi verkbanni.
46. gr.
Framkvæmdastjórn getur veitt undanþágu frá þátttöku í verkbanni, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Nú fæst eigi samþykki framkvæmdastjórnar til undanþágu og má þá bera málið undir stjórn SA sem getur, ef 2/3 fundarmanna á stjórnarfundi eru því samþykkir, veitt hina umbeðnu undanþágu.
47. gr.
Enginn félagsmaður má ráða til sín launþega sem eru í verkbanni eða verkfalli hjá öðrum félagsmönnum.
Framkvæmdastjórnin getur ákveðið að sama skuli gilda um verkbann eða verkfall erlendis.
Þegar verkfall eða verkbann verður hjá félaga innan SA skal hlutaðeigandi, ef hann telur ástæðu til eða framkvæmdastjóri óskar, senda skrifstofu samtakanna skrá yfir launþega þá sem hlut eiga að máli. Er þá heimilt að kynna það þeim félögum sem ástæða þykir til hverjir þátttakendur séu í verkfallinu.
48. gr.
Þegar vinnustöðvun stendur yfir hjá einhverjum félagsmanni má enginn félagi í samtökunum vinna gegn hagsmunum hans, t.d. með því að taka að sér, án samkomulags við hlutaðeiganda sjálfan eða stjórn viðkomandi aðildarfélags, framkvæmd á verki, sölu á vöru eða þjónustu sem hlutaðeigandi atvinnurekandi hefur tekið að sér eða á annan hátt nota sér aðstöðuna til þess að rýra viðskipti hans eða starfssvið.
Framkvæmdastjórn getur, þegar vinnustöðvun stendur yfir eða er yfirvofandi, bannað atvinnurekendum í samtökunum að hafa viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða á sérstaklega ákveðnum sviðum, svo sem að selja tilgreinda vörutegund, og gert aðrar slíkar ráðstafanir sem hún telur nauðsynlegar vegna deilunnar.
Ef einhver utan samtakanna vinnur beinlínis gegn hagsmunum félagsmanna sem eiga í vinnustöðvun er öðrum félagsmönnum óheimilt að eiga viðskipti við hann meðan á vinnustöðvuninni stendur. Framkvæmdastjórn SA getur samþykkt að sama skuli einnig gilda eftir að vinnustöðvun er lokið, annað hvort um tiltekinn tíma eða þar til framkvæmdastjórnin afléttir slíku viðskiptabanni.
Stjórnin getur ákveðið tilsvarandi aðgerðir í deilumálum sem hafa eigi leitt til vinnustöðvunar.