III. kafli. Úrsögn og brottvikning

8. gr. 

 

Um úrsagnir aðildarfyrirtækja úr samtökunum fer eftir samþykktum hlutaðeigandi aðildarfélags. Þó má hvorki segja sig úr samtökunum né fara úr þeim á meðan vinnudeila sem snertir hlutaðeigandi aðildarfélag eða fyrirtæki stendur yfir.

 

Aðildarfélagi er heimilt að segja sig úr samtökunum frá áramótum að telja, enda hafi skrifleg úrsögn borist skrifstofu samtakanna minnst sex mánuðum áður.

 

9. gr. 


Brjóti aðildarfyrirtæki gegn ákvæðum samþykkta þessara getur framkvæmdastjórn samtakanna vikið því úr samtökunum, enda hafi fyrirtækinu og aðildarfélagi þess gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Fyrirtækið eða aðildarfélag þess getur innan mánaðar krafist að brottvikning sé borin undir stjórn og skal boðað til fundar innan viku. Stjórnin getur með 2/3 hlutum greiddra atkvæða fellt ákvörðun framkvæmdastjórnar úr gildi.

Úrsögn eða brottvikning leysir aðildarfyrirtæki ekki undan greiðslu áfallinna árgjalda eða annarra skulda eða ábyrgða sem á því hvíla.