VI. kafli. Fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins

20. gr.

 
Fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins hefur æðsta vald í málefnum samtakanna milli aðalfunda. Hlutverk fulltrúaráðsins er að kjósa samtökunum stjórn og vera henni til ráðuneytis um stefnumörkun eftir því sem stjórnin ákveður hverju sinni. Fulltrúar í fulltrúaráði fara með atkvæði á aðalfundi samtakanna.

21. gr. 


Fulltrúaráðið skipa:

a) Formaður samtakanna, sem jafnframt er formaður fulltrúaráðsins.

b) 100 fulltrúar sem tilnefndir eru af aðildarfélögum samtakanna í hlutfalli við greidd árgjöld á næstliðnu reikningsári.

22. gr.

 
Aðildarfyrirtæki velja fulltrúa til setu í fulltrúaráði, enda hafi þau fyrir 14. febrúar ár hvert tilkynnt skrifstofu SA að þau ein sér eða fleiri saman fari beint með atkvæði sín við skipan í fulltrúaráð. Hafi aðildarfyrirtæki ekki tilkynnt um beina tilnefningu fyrir þann tíma falla atkvæði þess til hlutaðeigandi aðildarfélags.

Þau fyrirtæki sem ekki fara beint með atkvæði sín við skipan í fulltrúaráð taka þátt í vali fulltrúa á vettvangi hlutaðeigandi aðildarfélags. Skulu þeir fulltrúar kosnir skv. þeim reglum sem félagið setur en um atkvæðarétt fer skv. atkvæðaskrá SA sbr. 19. gr.

Fyrirtæki sem tilnefna beint fulltrúa í fulltrúaráð skv. 1. mgr. hafa einungis atkvæðarétt um val fulltrúa aðildarfélags að því marki sem ónýtt atkvæði þess nýtist hlutaðeigandi aðildarfélagi við úthlutun sæta í fulltrúaráði.

23. gr. 


Samhliða útgáfu atkvæðaskrár skv. 19. gr. skal skrifstofa SA skipta 100 sætum í fulltrúaráði milli þeirra aðildarfyrirtækja sem tilnefna beint og aðildarfélaga í réttu hlutfalli við atkvæðavægi skv. atkvæðaskrá.

Með aðalfundarboði skal fylgja skrá um skiptingu fulltrúa skv. framanskráðu svo og ósk um tilnefningu aðildarfélaga á fulltrúum til setu í fulltrúaráði frá og með þeim aðalfundi.

Gangi maður úr fulltrúaráðinu skal tilnefningaraðili velja annan mann í hans stað.

24. gr.

 
Fulltrúaráðið skal kvatt saman eftir ákvörðun framkvæmdastjórnar og eins ef fjórðungur stjórnarmanna eða aðildarfyrirtæki sem fara með minnst 10% af heildaratkvæðum í samtökunum óska þess.

Fulltrúaráðsfundur er löglegur ef minnst þriðjungur fulltrúaráðsmanna sækir fund.

Nú er fundur ekki löglegur vegna ónógrar fundarsóknar og má þá boða til fundar á ný innan viku og sé þess getið í fundarboði, að til fundar sé boðað vegna ónógrar fundarsóknar á fyrri fundinum, þá telst síðari fundurinn lögmætur án tillits til þess hve margir sækja hann.

Fulltrúaráðsmaður sem forfallaður er frá fundarsókn getur falið öðrum fulltrúaráðsmanni að fara með atkvæði á fundinum. Enginn getur þó farið með fleiri en eitt umboð á fundi.

Fundir fulltrúaráðsins skulu haldnir fyrir luktum dyrum nema öðru vísi sé ákveðið.