VIII. kafli. Aðalfundur

30. gr. 


Aðalfundur samtakanna hefur æðsta vald í málefnum Samtaka atvinnulífsins. Aðalfund skal halda fyrir lok maímánaðar ár hvert og skal til hans boða með minnst fjögurra vikna fyrirvara með tilkynningu til félaga.

Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétt eiga stjórnendur aðildarfyrirtækja, aðrir félagar og starfsmenn SA og aðildarfélaganna.

31. gr.

 
Á dagskrá aðalfundar skal m.a. vera:

1. Skýrsla stjórnar fyrir næstliðið starfsár.

2. Reikningar samtakanna fyrir næstliðið reikningsár.

3. Að lýsa kjöri formanns.

4. Að lýsa kjöri stjórnar.

5. Kosning löggilts endurskoðanda.

6. Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál.

 

32. gr. 


Við atkvæðagreiðslu á aðalfundi fara fulltrúar í fulltrúaráði með atkvæðarétt. Sé fulltrúaráðsmaður forfallaður getur hann falið öðrum að fara með atkvæði sitt. Enginn getur þó farið með fleiri en tvö atkvæði á aðalfundi.

Komi fram ósk um skriflega atkvæðagreiðslu á aðalfundi skal orðið við því.