IX. kafli. Undirbúningur og framkvæmd funda

33. gr. 


Samtök atvinnulífsins hafa það að markmiði að starfa í sem nánustum tengslum við aðildarfélög og fyrirtæki. Í því skyni skal hafa reglubundið samráð við aðildarfélög og þá aðila sem ætla má að eigi sérlega mikilla hagsmuna að gæta. Samtökin skulu m.a. kanna afstöðu innan samtakanna til mikilvægra mála og leitast við að gefa aðildarfyrirtækjum kost á að koma sjónarmiðum á framfæri áður en afstaða samtakanna er endanlega mótuð.

34. gr.

 
Framkvæmdastjórn getur kvatt til almennra félagsfunda í samtökunum og gilda þá sömu reglur við atkvæðagreiðslu og á næstliðnum aðalfundi. Slíkir fundir skulu auglýstir opinberlega og boðaðir með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara. Víkja má frá fyrirvara við boðun enda samþykki það fulltrúar fyrir 2/3 hluta atkvæða.

Fundir samtakanna skulu haldnir í Reykjavík nema framkvæmdastjórn ákveði annan fundarstað og skal boðað bréflega eða með öðrum jafntryggum hætti til funda í stjórnum og nefndum samtakanna. Almenna fundi skal auglýsa. Framkvæmdastjóri samtakanna annast boðun funda.

Fundur sem löglega er boðaður er lögmætur án tillits til þess hve margir sækja hann, nema öðru vísi sé ákveðið í samþykktum þessum.

Formaður samtakanna, eða fundarstjóri sem hann tilnefnir, stýrir fundum þeirra og tilnefnir fundarritara.

Atkvæðagreiðsla og önnur meðferð mála á fundum fer eftir ákvörðun fundarstjóra. Þó skal jafnan viðhafa skriflega atkvæðagreiðslu ef einhver atkvæðisbærra fundarmanna krefst þess. Verði ágreiningur um afgreiðslu mála skal meirihluti atkvæða ráða úrslitum, nema öðru vísi sé ákveðið í samþykktum þessum. Falli atkvæði jafnt við persónukjör skal hlutkesti ráða.

Færa skal til bókar stutta skýrslu um það sem fram fer á fundum samtakanna.