Nýsköpun, sprotar og rannsóknir

Nýsköpun, sprotar og rannsóknir

  • Fyrirtæki í öllum atvinnu­greinum verða að stunda nýsköpun og þróun. Á það jafnt við hreinræktuð vísindafyrirtæki og sjávarútvegsfyrirtæki, sem og fyrirtæki í verslun, þjónustu og skapandi starfsemi. Öflug fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun bætir samkeppnishæfni þjóða til að leysa þau stóru verkefni sem menn standa frammi fyrir á hverjum tíma. Þá gildir einu hvort um er að ræða rannsóknir eða nýjar lausnir í umhverfis­málum, orkumálum eða heilbrigðismálum.

  • Það þarf að hvetja einstaklinga til að þróa eigin hugverk yfir í verðmæta afurð. Frumkvöðlar eiga það flestir sameiginlegt að eiga ekki peninga heldur aðeins góðar hugmyndir og eldmóð. Mikilvægt er að ungt vel menntað fólk geti haslað sér völl og skapað sér starfsvettvang í rannsókna- og nýsköpunarstarfi hér á landi.

  • Styðja þarf við uppbyggingu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja sem stefna á alþjóðlegan markað m.a. með einfaldara og betra starfs- og fjármögnunarumhverfi, markaðsaðgengi og ráðgjöf sem byggir á margþættri þekkingu og tengslamiðlun.

  • Lítil fyrirtæki þarfnast meiri aðstoðar en stór frá háskólum og opinberum rannsóknastofnunum við að þróa og markaðssetja hugverk sín og vörur og auka þannig verðmætasköpun í þjóðfélaginu.

  • Innleiða þarf frekari skattalega hvata til að auka fjárfestingu sprota- og nýsköpunar­fyrirtækja í rannsóknum og nýsköpun og koma til móts við áhættu fjárfesta við kaup á hlutabréfum í slíkum fyrirtækjum.

  • Heimildir lífeyrissjóða til að kaupa í nýsköpunarfyrirtækjum sem hlotið hafa staðfestingu Rannís verði rýmkaðar.

  • Efla þarf opinbera samkeppnissjóði á sviði vísinda og tækni þar sem úthlutun byggir á skýru mati á gæðum og ávinningi og sókn í alþjóðlega samkeppnissjóði.

  • Mikilvægasti stuðningur hins opinbera við nýsköpun í atvinnulífinu er í gegnum Tækniþróunarsjóð. Hann á því að efla.

Það verði sameiginlegt markmið atvinnulífs og stjórnvalda að auka framlag til rannsókna og nýsköpunar svo það nemi a.m.k. 3% af vergri landsframleiðslu árið 2016. Hlutur atvinnu­lífsins verði helmingur þess[1].

[1] Framlag til rannsókna og nýsköpunar var 2,6% af VLF árið 2011. Þar af var framlag fyrirtækja 1,2% af VLF.

 

Aftur í áherslur