Ýmis rit Samtaka atvinnulífsins
Í kjölfar kjarasamninga
Í júlí 2016 kom út skýrslan Í kjölfar kjarasamninga sem fjallar um launaþróun eftir samningssviðum og viðsemjendum á tímabilinu 2006 til 2015. Skýrslan er samstarfsverkefni þeirra heildarsamtaka á vinnumarkaði sem aðild eiga að Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga (Salek). Skýrslan er sú þriðja í röðinni sem fjallar um viðfangsefnið en þær fyrri báru nafnið Í aðdraganda kjarasamninga og voru gefnar út í október 2013 og febrúar 2015, í þann mund er viðræður voru að hefjast um endurnýjun kjarasamninga.
Fíllinn í herberginu
Á ársfundi atvinnulífsins í apríl 2016 kom út ritið Fíllinn í herberginu og leitin að peningastefnunni. Að mati Samtaka atvinnulífsins hefur ríkt of mikil þögn um peningastefnu Íslands og því hafa samtökin lagt fram tillögur í nýju riti sem innlegg í umræðu um endurbætur peningastefnunnar. Íslensk heimili og fyrirtæki eiga mikið undir því að vel takist til.
Fíllinn í herberginu og leitin að peningastefnunni (PDF)
Leiðbeiningar um stjórnarhætti
Nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja komu út í maí 2015. Leiðbeiningunum er ætlað að stuðla að góðum stjórnarháttum með því að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnenda fyrirtækja og auðvelda þeim þannig að rækja störf sín og um leið treysta hag hluthafa, fjárfesta og annarra hagsmunaaðila. Útgáfuaðilar leiðbeininganna eru Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Kauphöll Íslands.
Leiðbeiningarnar má nálgast hér
Gerum betur
Samtök atvinnulífsins hafa gefið nýtt rit þar sem er að finna tillögur að því hvernig gera má Ísland að betri stað til að búa á, starfa og reka fyrirtæki. Ritið heitir Gerum betur en þar er bent á nauðsyn þess að efnahagsumhverfið sé stöðugt svo hægt sé að skapa betri lífskjör og auka kaupmátt heimilanna. Ritið var kynnt á Ársfundi atvinnulífsins í apríl 2015.
Í aðdraganda kjarasamninga 2015. Efnahagsumhverfi og launaþróun
Skýrsla heildarsamtaka vinnumarkaðarins gefin út í febrúar 2015.
10/10 Betri lífskjör
Samtök atvinnulífsins hafa sett fram metnaðarfulla stefnu: Að Ísland verði meðal 10 samkeppnishæfustu þjóða heims innan 10 ára. Stefnumörkunin var kynnt á Ársfundi atvinnulífsins í apríl 2014.
Takist Íslendingum að verða meðal 10 samkeppnishæfustu þjóða heimsins verður atvinnulífið fjölbreyttara og það mun skila meiri arðsemi. Verðmætasköpun þjóðarinnar mun jafnframt aukast sem er forsenda fyrir betri lífskjörum Íslendinga.
Sjá nánar:
10/10 Betri lífskjör. 10 leiðir til að koma okkur á toppinn á 10 árum (ISSUU)
Í aðdraganda kjarasamninga 2014. Efnahagsumhverfi og launaþróun
Heildarsamtök vinnumarkaðarins kynntu í október 2013 nýja úttekt á efnahagsumhverfi Íslands og launaþróun í aðdraganda kjarasamninga. Í henni kemur fram að sameiginleg sýn samningsaðila í atvinnu- og efnahagsmálum á svigrúm til launabreytinga auðveldi gerð kjarasamninga. Samkeppnishæft atvinnulíf sé úrslitaatriði um efnahagslegan vöxt og viðgang lítils og opins hagkerfis eins og hins íslenska.
Smelltu hér til að sækja skýrsluna
Kjarasamningar og vinnumarkaður á Norðurlöndum
Vinnuhópur aðila vinnumarkaðarins kynnti í maí 2013 nýja skýrslu um vinnumarkað og skipulag kjarasamninga í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Markmið með úttektinni er að leita fyrirmynda í nágrannaríkjum Íslands sem geta nýst við að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga hér á landi þannig að þeir stuðli að stöðugu verðlagi, auknum kaupmætti launa og samkeppnishæfni atvinnulífsins.
Smelltu hér til að sækja skýrsluna
Fleiri störf - betri störf
Samtök atvinnulífsins gáfu út í janúar 2013 nýtt tímarit þar sem horft er til þeirra fjölmörgu tækifæra sem eru í atvinnulífinu. Þar er að finna uppskrift að því hvernig búa má til fleiri og betri störf á Íslandi á næstu árum og bæta lífskjör þjóðarinnar. Fjölmargir leggja til hráefni í uppskriftina en alls er rætt við yfir 30 stjórnendur í ritinu auk þess sem leitað var eftir hugmyndum meðal allra félagsmanna Samtaka atvinnulífsins. Í ritinu er að finna snarpar greinar um efnahagsmál auk 12 tengdra sjónvarpsviðtala.
Smelltu hér til að lesa tímarit SA
Skattstofnar atvinnulífsins. Ræktun eða rányrkja
Samtök atvinnulífsins gefa út þann 9. nóvember 2012 nýtt rit um skattamál atvinnulífsins undir yfirskriftinni Ræktun eða rányrkja? Í ritinu er leiðinni til betra skattkerfis lýst og settar eru fram tillögur að markvissum breytingum á næstu fjórum árum sem miða að því að bæta hag fólks, fyrirtækja og ríkissjóðs.
Rafrænt eintak rits SA má nálgast hér
Viðhorf atvinnulífsins. Samkeppnislögin og framkvæmd þeirra
Þann 3. október 2012 kom út nýtt rit SA þar sem farið er yfir stöðu samkeppnismála á Íslandi og lagðar fram tillögur að því sem betur má fara en aðildarfyrirtæki SA, bæði stór og smá, hafa kvartað yfir því að samkeppnislöggjöfin sé bæði flókin og óljós og erfitt sé að fá leiðbeiningar frá Samkeppniseftirlitinu um hvernig þau geti metið hvort þau teljist í svokallaðri markaðsráðandi stöðu. Einnig benda fyrirtækin á að erfitt sé að fá leiðbeinandi upplýsingar um hvernig þeim beri að haga markaðsstarfi þannig að það samrýmist stöðu þeirra og hvernig samkeppnisyfirvöld skilgreina einstaka markaði en það hefur lykilþýðingu fyrir fyrirtækin.
Rafrænt eintak rits SA má nálgast hér
Uppfærum Ísland
Þann 18. apríl 2012 gáfu Samtök atvinnulífsins út nýtt rit um uppfærslu Íslands. Tillögurnar miða að því að styrkja menntakerfið og efla atvinnulífið með aukinni samvinnu skóla og fyrirtækja. Ritið byggir á umræðu um 100 stjórnenda úr íslensku atvinnulífi en fyrirtæki og samtök í atvinnulífinu kalla eftir sameiginlegri stefnumótun með stjórnvöldum um framtíð og þróun menntakerfisins. Í ritinu er horft til framtíðar og skoðaðar hugmyndir og tillögur sem geta stutt við jákvæða þróun atvinnulífsins, breytt viðmóti og sýn fólks og opnað á nýja möguleika til atvinnusköpunar.
Rafrænt eintak rits SA má nálgast hér
Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara
Þann 11. nóvember 2011 gáfu Samtök atvinnulífsins út nýtt rit um hvernig rjúfa má kyrrstöðuna á Íslandi og bæta lífskjörin. Í ritinu er m.a. fjallað um gjaldmiðilsmálin, brottflutning Íslendinga frá landinu í hálfa öld, leitina endalausu að stöðugleika í efnahagsmálum, þróun á vinnumarkaði, tækifæri til að draga úr atvinnuleysinu og auka samkeppnishæfni þjóðarinnar. Í ritinu kemur fram að SA telji að með markvissum aðgerðum sé hægt að koma efnahagslífinu á öflugt skrið.
Rafrænt eintak rits SA má nálgast hér
Tillögur til umbóta á skattkerfinu
Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands gáfu út í september 2010 nýtt rit með ítarlegum tillögum til umbóta á skattkerfinu sem hafa það að markmiði að efla fjárfestingu, auka atvinnu og bæta lífskjör. Ritið heitir Skattkerfi atvinnulífsins. Fjárfesting - atvinna - lífskjör.
Í inngangi ritsins kemur m.a. fram að á Íslandi eru skatttekjur hins opinbera í hlutfalli við landsframleiðslu meðal þeirra hæstu í OECD ríkjunum (m.v. 2007) þegar lögbundin iðgjöld í lífeyrissjóði eru talin með. Það er eðlilegt að telja þau með þar sem sambærileg iðgjöld eru víðast annars staðar í formi skatta. Hlutfallið þannig reiknað var 48,6% á Íslandi en hæst 48,7% í Danmörku. Skatthlutfall evru-ríkjanna var hins vegar 39,7% og OECD-ríkjanna 35,8%.
Rafrænt eintak rits SA og VÍ má nálgast hér
Tillögur SA um nauðsynlegar umbætur í fjármálum hins opinbera
Í júní 2010 gáfu Samtök atvinnulífsins út nýtt rit um fjármál hins opinbera. Í ritinu að finna beinar tillögur að því sem betur má fara en fjallað er um fjárlög ríkisins og umgjörð þeirra og í einstökum köflum er m.a. fjallað um heilbrigðis- mennta- og velferðarmál auk þess sem fjallað er um málefni sveitarfélaga.
Einn meginþátturinn í endurreisn íslensks efnahags er að snúa hallarekstri ríkissjóðs við þannig að afgangur verði á rekstrinum. Fjármál hins opinbera hafa margvísleg áhrif á atvinnulífið og móta starfsskilyrði og samkeppnisstöðu þess. Opinberu fjármálin hafa t.a.m. áhrif á verðbólgu og vexti og þar með á hagvöxt, sköpun starfa og kaupmátt launa. Traust opinber fjármál eru því ein grundvallarforsenda þess að unnt verði að sækja fram til bættra lífskjara.
Tillögur SA um nauðsynlegar umbætur í fjármálum hins opinbera má nálgast hér
Aðgerðaáætlun 2010 um uppbyggingu atvinnulífsins
Samtök atvinnulífsins kynntu í febrúar 2010 nýja stefnumörkun um atvinnu- og efnahagsmál sem miðar að sköpun nýrra starfa og uppbyggingu atvinnulífsins á þessu ári og í næstu framtíð. Meginmarkmiðið er að útrýma atvinnuleysi og tryggja að ný störf verði til fyrir þá sem koma út á vinnumarkaðinn á næstu árum. Um er að ræða stefnumörkun á fjölmörgum sviðum sem miða að því að koma Íslandi af stað. Yfirskrift hennar er Atvinna fyrir alla.
Aðgerðaáætlun SA í atvinnumálum 2010 má nálgast hér
Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja - 3. útgáfa
Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands og NASDAQ OMX Iceland gáfu út í júní 2009 endurskoðaðar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja. Í þessari 3. útgáfu leiðbeininganna er sérstaklega horft til sambærilegra leiðbeininga frá öðrum löndum og forskriftar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu. Fleiri og ítarlegri ákvæði eru í nýju leiðbeiningunum og gerðar eru ríkari kröfur til stjórnenda fyrirtækja en áður á nær öllum sviðum.
Leiðbeiningarnar má nálgast hér
Hagsýn, framsýn og áræðin atvinnustefna SA
Samtök atvinnulífsins hafa markað hagsýna, framsýna og áræðna atvinnustefnu sem innlegg í umræðu um hvernig hægt er að snúa vörn í sókn. Þar kemur fram að bregðast verði rétt við, lágmarka þann skaða sem hefur orðið og auðvelda nýja uppbyggingu. Nauðsynlegt sé að grípa til ráðstafana og taka ákvarðanir sem skapi grunn að nýrri framfarasókn. Ritið kom út í janúar 2009.
Ísland 2050: Eldri þjóð – ný viðfangsefni
Samtök atvinnulífsins hafa gefið út ritið Ísland 2050: Eldri þjóð – ný viðfangsefni . Þar er fjallað er um þau viðfangsefni sem þjóðin þarf að fást við vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Í ritinu er sett fram ný mannfjöldaspá SA en aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar árið 2050 verður mjög frábrugðin því sem nú er. Einstaklingar á eftirlaunaaldri, 65 ára og eldri, verða til að mynda 27% íbúanna í stað 12% nú og munu telja 109 þúsund manns. Fjöldi Íslendinga 80 ára og eldri mun fimmfaldast fram til 2050, úr 9 þúsund í 45 þúsund. Í ritinu er fjallað er um framtíðarhorfur á íslenskum vinnumarkaði og fólksfjöldaþróun í heiminum öllum. Ritið kom út í apríl 2007.
Heilbrigður einkarekstur
Samtök atvinnulífsins hafa gefið út ritið Heilbrigður einkarekstur – tækifæri til sóknar í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Í því er fjallað um þær áskoranir sem íslenskt heilbrigðiskerfi stendur frammi fyrir og settar eru fram ítarlegar tillögur um hvernig bregðast skuli við þeim. Auk greiningar SA eru í ritinu birt viðtöl við sérfróða aðila sem tjá sig um einkarekstur og framtíð íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Rætt er við Sigurð Guðmundsson, landlækni, Sigurð Ásgeir Kristinsson, bæklunarlækni og framkvæmdastjóra Orkuhússins, Önnu Birnu Jensdóttur, hjúkrunarforstjóra Sóltúns og framkvæmdastjóra Öldungs hf., Stefán Þórarinsson, stjórnarformann Nýsis, og Grím Sæmundsen, lækni og forstjóra Bláa Lónsins hf. Ritið var gefið út í júní 2006.
Íslenska lífeyriskerfið í umbreytingu
Samtök atvinnulífsins hafa gefið út Íslenska lífeyriskerfið í umbreytingu. Þar er í fyrsta sinn lagt mat á samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða næstu áratugina en líkur eru á að smám saman verði hlutverk lífeyrissjóðanna yfirgnæfandi þegar kemur að greiðslu lífeyris í stað hins opinbera. Í skýrslunni er dregin upp mynd af framtíðarþróun íslenska lífeyriskerfisins og þeim áskorunum sem það stendur frammi fyrir. Til að varpa ljósi á þessar áskoranir gerðu SA könnun á tryggingafræðilegum uppgjörum 15 lífeyrissjóða. Um framreikning á lífeyrisgreiðslum næstu áratugi sá Bjarni Guðmundsson, tryggingastærðfræðingur. Skýrslan kom út í mars 2006.
Skýrsluna í heild má nálgast í heild hér
Út er komin skýrslan Í kjölfar kjarasamninga sem fjallar um launaþróun eftir samningssviðum og viðsemjendum á tímabilinu 2006 til 2015. Skýrslan er samstarfsverkefni þeirra heildarsamtaka á vinnumarkaði sem aðild eiga að Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga (Salek). Skýrslan er sú þriðja í röðinni sem fjallar um viðfangsefnið en þær fyrri báru nafnið Í aðdraganda kjarasamninga og voru gefnar út í október 2013 og febrúar 2015, í þann mund er viðræður voru að hefjast um endurnýjun kjarasamninga.