Spurningar og svör
Hvað viltu gera í starfsmenntamálum í þínu fyrirtæki ?
Þú vilt auka þekkingu og færni starfsmanna þinna til að auka gæði, framlegð og starfsánægju, minnka starfsmannaveltu, fækka kvörtunum, í stuttu máli bæta samkeppnisstöðu fyrirtækisins.
- Hvar byrja ég?
Þú getur byrjað á að hafa samband við fræðslusjóði þar sem starfsfólk leiðbeinir þér. Starfsmenntasjóður verslunar og skrifstofufólks, Landsmennt, Starfsafl hafa með sér samstarf um að lána fyrirtækjum fræðslustjóra tímabundið án endurgjalds. Fræðslustjórinn er þjálfaður mannauðsráðgjafi sem setur upp fræðsluáætlun í samráði við þig og starfsmennina. Annað ráð er að hafa samband við fyrirtæki sem eru með fræðslumálin í farvegi, þannig að þú þurfir ekki að finna upp hjólið. Ef þú ert fyrst og fremst með iðnmenntað fólk í vinnu ættirðu að hafa samband við Iðuna og Rafiðnaðarsambandið og leita ráða. - Fæ ég styrk til að halda námskeið í fyrirtækinu?
Grunnreglan er sú að starfsmenntasjóðir styrkja fræðslu sem félagsmenn þeirra njóta og fyrirtækið skipuleggur. Búið hefur verið til sameiginlegt umsóknareyðublað fyrir stærstu sjóðina til að auðvelda fyrirtækjum að sækja um. Fyrirtæki kaupa námskeið víða að. Starfsmenn sjóða geta verið þér innan handar við að finna og meta námskeið bæði hvað varðar innihald og kostnað. - Fæ ég sambærilega styrki úr starfsmenntasjóðum fyrir alla starfsmenn ?
Nei, það á sér skýringar í tilurð starfsmenntgjaldsins og mismunandi samningum. Vegna gagnrýni fyrirtækja með starfsmenn með fjölbreyttan bakgrunn hefur verið reynt að samræma sem kostur er úthlutunarreglur stærstu sjóðanna. Fyrirtæki mega búast við að fá í styrk þrjá fjórðu hluta kostnaðar við námsskeiðshald sem sjóðirnir styðja, þó eru reglur um hámark á kennda klukkustund. Gott er að kanna þetta áður er námskeið eru haldin til að lenda ekki í óvæntum útgjöldum en það er ekki skilyrði. Þú getur sótt styrk fyrir fræðslu sem hefur átt sér stað. - Geta starfsmenn mínir líka sótt um einstaklingsstyrk í fræðslu á vegum fyrirtækisins ?
Það fer eftir hvað átt er við með „á vegum fyrirtækisins“. Það er á valdi hvers og eins starfsmanns hvernig hann ver sínum einstaklingsstyrk sem er takmörkuð upphæð á ári. Forráðamenn fyrirtækja geta bent starfsmönnum sínum á áhugaverð námskeið en ekki ákveðið að þeir eigi að fara á tiltekin námskeið og nota sinn einstaklingsstyrk til þess. Eðlilegt er, að ef forráðamenn fyrirtækja vilja að starfsmenn sæki ákveðin námskeið, sæki þeir í nafni fyrirtækisins um styrk til þess, fjöldi styrkja til fyrirtækja er ekki takmarkaður. - Í fyrirtækinu er fólk sem getur miðlað sérhæfðri þekkingu á mörgum sviðum, er hægt að sækja um styrki til innri fræðslu?
Það er eitthvað mismunandi eftir sjóðum og þarf að afla upplýsinga hjá hverjum þeirra um hvernig þeir koma að slíku. Landsmennt og Starfsafl styrkja innri fræðslu en hana þarf að veita innan afmarkaðs ramma. SVS veitir afslátt af starfsmenntagjaldi ef fræðsluáætlun er til staðar. Aflið upplýsinga um hann áður en lagt er af stað. - Ég er með sérhæfða starfsmenn, er einhvers staðar að hafa yfirsýn um það sem er í boði í símenntun til starfa ?
Nei það er ekki. Fræðsluaðilar eru duglegir að koma sér á framfæri, það á við um fræðslufyrirtæki, skóla, endurmenntunarstofnanir, fræðslustofnanir atvinnulífsins og símenntunarmiðstöðvar. Miklu skiptir að gera sér grein fyrir hvað einstaklingur eða fyrirtæki vill fá út úr þeirri fræðslu sem það leggur tíma og fé í, hvort það er aukin framleiðni, sérþekking, starfsánægja, lífsfylling. - Ég keypti og hélt námskeið fyrir starfsmenn, get ég sótt um styrk ef búið er að halda það ?
Já það er hægt ef það er styrkhæft og er innan tímamarka sem sjóðirnir setja.