Starfsþjálfun í fyrirtækjum

Annar fundur í fundaröðinni Menntun og mannauður var haldinn þriðjudaginn 18. október í Húsi atvinnulífsins. Að þessu sinni var fjallað um starfsþjálfun í fyrirtækjum og svokallað TTRAIN (e. Tourism training) verkefni, sem er nýtt og snýst um að mennta fólk í ferðaþjónustu sem sér um þjálfun nýrra starfsmanna í fyrirtækinu og endurmenntun þeirra sem fyrir eru. Sambærilegt verkefni RETRAIN hefur verið útfært fyrir verslunina á Íslandi. Þessi verkefni hafa mælst mjög vel fyrir og geta jafnframt nýst fyrirtækjum í öðrum atvinnugreinum.

undefined

Magnús Smári Snorrason, verkefnastjóri þróunar á alþjóðasviði Háskólans á Bifröst, greindi frá því að verkefnið væri samevrópskt og styrkt af Erasmus+ menntaáætlun ESB. Verkefnisstjórn er í höndum Rannsóknaseturs verslunarinnar og einnig taka þátt í því Samtök ferðaþjónustunnar og Háskólinn á Bifröst. Erlendir samstarfsaðilar eru frá Finnlandi, Austurríki og Ítalíu. Þessir aðilar hafa í sameiningu þróað námsskrá sem kennt hefur verið eftir í hverju þátttökulandi í tilraunaskyni. Magnús greindi frá uppbyggingu og innihaldi námsins sem byggir á þarfagreiningu í hverju landi fyrir sig. Námsskráin hefur verið endurbætt að lokinni tilraunakennslu og verður námið nú boðið fleiri fyrirtækjum.

Signý Óskarsdóttir, eigandi Creatrix sem sérhæfir sig í verkefnum og ráðgjöf sem tengjast skapandi hugsun, samfélagslegri nýsköpun og þróunarvinnu, greindi frá því hvernig skapandi aðferðir voru notaðar í tilraunakennslu í verkefninu. Hún nefndi m.a. hlutverkaleiki, ratleiki, klípusögur og kennslumyndbönd og leiki en aðferðirnar voru valdar út frá þörfum á hverjum vinnustað og þeirri hæfni sem verið var að þjálfa. Signý lagði áherslu á að skapandi hugsun ýtti undir skapandi aðferðir í námi. 

undefined

Fulltrúar þriggja þeirra 10 fyrirtækja í ferðaþjónustu sem tóku þátt í tilraunaverkefninu greindu frá reynslu sinni. Þetta voru Aðalheiður Hannesdóttir, verkefnastjóri gæðamála og Erla Ósk Ásgeirsdóttir, mannauðsstjóri Icelandair hotels, Sigríður Inga Þorkelsdóttir tengiliður við hótel og upplýsingamiðstöðvar og Lára B. Þórisdóttir, afgreiðslustjóri Reykjavík Excursions og Elísabet Einarsdóttir, starfsmannastjóri Íslandshótela.

undefined

Þau gerðu góðan róm að náminu en reynslan af þátttöku undirstrikaði mikilvægi góðrar grunnþjálfunar fyrir starfsmenn, markvissrar þjálfunaráætlunar og vandaðra starfslýsinga. Þetta allt skilaði betri starfsmönnum, aukinni starfsánægju og arðsemi fyrirtækjanna. Jafnframt voru þátttakendur mjög ánægðir með tengslanetið sem myndaðist í verkefninu.

Fundarstjóri var María Guðmundsdóttir fræðslustjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og var fundinum jafnframt sýndur í beinni útsendingu.

undefined

Smelltu hér til að horfa á upptöku frá fundinum

Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni þriðja hvern þriðjudagsmorgun í mánuði og mun standa til vors 2017. Næsti fundur verður haldinn 15. nóvember.

undefined

Glærur Magnúsar (PDF)

Glærur Signýjar (PDF)

Glærur Erlu Óskar (PDF)

Glærur Elísabetar (PDF)