Tökum vel á móti erlendu starfsfólki

Mikilvægt er að Íslendingar taki vel á móti erlendu starfsfólki sem þjóðfélagið þarf á að halda næstu ár og áratugi. Risavaxnar áskoranir á íslenskum vinnumarkaði eru framundan vegna öldrunar þjóðarinnar og mikillar örorkubyrði, en til að standa undir góðum hagvexti og lífskjörum til framtíðar þarf Ísland á erlendu starfsfólki að halda.

Ísland er að þróast í fjölmenningarsamfélag en því er spáð að hlutfall erlendra ríkisborgara verði orðið 20% innan ekki langs tíma en hlutfallið er 8% í dag. Erlent starfsfólk er því lykill að fjölbreyttum og öflugum vinnumarkaði og nauðsynleg forsenda þess að auka samkeppnishæfni landsins.

Samtök atvinnulífsins ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Samorku og Samtökum verslunar og þjónustu stóðu fyrir vel heppnuðum fundi um erlent starfsfólk á Íslandi í Húsi atvinnulífsins í vikunni en þar voru sagðar reynslusögur fyrirtækja sem hafa ráðið erlent starfsfólk í vinnu. 

undefined

Ljósi var varpað á það sem hefur heppnast vel og kom fram að stjórnendur geta lært ýmislegt af Strætó, Hýsingu Vöruhótel og Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Fundurinn var vel sóttur og hann var einnig sýndur í beinni útsendingu um land allt.

Meginþorri  fyrirtækja sem ráðið hefur erlent starfsfólk í vinnu virðir réttindi íslensks vinnumarkaðar og er með sín mál í lagi þrátt fyrir að háværar raddir heyrist um misnotkun íslenskra fyrirtækja á erlendu starfsfólki.

Meðal þess sem fulltrúar fyrirtækjanna sögðu var:

undefined

„Fyrirtækið er oft fjölskylda erlendra starfsmanna í gleði og sorg.  Áskoranirnar sem fylgja ráðningum þeirra snúa að þjálfun og íslenskukennslu en líka að ótal mörgu öðru“

„Það getur þó verið mjög snúið fyrir fyrirtæki að ráða erlendan sérfræðing sem fyrirtækið þarf á að halda.“

„Það getur tekið 3-5 mánuði að fá hingað sérhæfða starfsmenn utan evrópska efnahagssvæðisins sem ekki finnast þar“   

Tiltölulega hóflegar spár gera ráð fyrir fjölgun starfa sem  nemur um 2000 á ári umfram innlenda nýliðun næstu 15-20 árin. Um þessar mundir þegar umsvifin í atvinnulífinu aukast mjög mikið er talan nær 5000 á ári. Búast má við að hlutfall erlendara ríkisborgara af vinnuafli verði orðið að minnsta kosti 10%  árið 2018  en það gerir nauðsynlegt að  endurskoða stefnu í innflytjendamálum og þá mun koma að notum þekking í fyrirtækjum sem hafa staðið vel að ráðningu erlendra starfsmanna.

Fundurinn var hluti af fundarröðinni Menntun og mannauður  en erindi fluttu Sigríður Harðardóttir, mannauðsstjóri Strætó, Guðmundur Oddgeirsson, framkvæmdastjóri Hýsingar Vöruhótels og Margrét Jónsdóttir, starfsmanna- og skrifstofustjóri Íslenskra Fjallaleiðsögumanna. Glærukynningar þeirra ásamt stuttri frásögn má nálgast hér að neðan.

undefined

Starfsmannastjóri Strætó gerði grein fyrir þeim áskorunum sem felast í þjálfun bílstjóra sem hafa aldrei búið á Íslandi. Þjónustan sem þeir sinni sé ekki bara að læra að aka strætisvögnum í mismunandi veðri, heldur líka að rata og þekkja staðhætti til að geta leiðbeint farþegum auk þess að þekkja tækið sem þeir eru með í höndunum.  Áskorunin væri að hjálpa fólki að komast inn í starfið, vinnumarkaðinn og samfélagið.

Glærur Sigríðar Harðardóttur

Framkvæmdastjóri Hýsingar Vöruhótels sagði að Íslendingar ofmeti ensku sem samskiptamál við starfsfólk sem hingað kemur til starfa. Það hafi reynst mistök að kenna pólskum starfsmönnum ensku, hún væri þeim flestum jafnframandi og íslenska. Hann sagði tilraunir til íslenskukennslu hafa tekist vel þegar hrífandi kennari með pólskan bakgrunn hafi komið til þeirra. Þá hafi komið í ljós einlæg þrá starfsmannanna til að læra tungumálið og geta þar með orðið virkir þátttakendur í leik og starfi á Íslandi. Það sé siðferðileg skylda þeirra sem leiti eftir erlendu starfsfólki að hjálpa til við að rjúfa einangrun þess.

Glærur Guðmundar Oddgeirssonar

Starfsmannstjórinn hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, Margrét Jónsdóttir rakti hve flókið og snúningasamt væri að fá fólk sem hefði til dæmis sérþekkingu og reynslu í leiðsögn í jöklaferðum til Íslands en það kæmi margt frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins.   Sagðist hún hafa mikla samúð með starfsfólki Útlendingastofnunar þar sem álag væri mikið. Nauðsynlegt væri að atvinnulífið og stofnunin færu yfir hvernig hægt væri að flýta afgreiðslu slíkra starfsleyfa.

Glærur Margrétar Jónsdóttur

Tengt efni:

RÚV: Of tímafrekt að ráða fólk utan Evrópu

Bylgjan: Skortur á jöklaleiðsögumönnum og bílstjórum með meirapróf