Nauðsynlegar endurbætur nást með útgjaldareglu
Framfaraskref í átt að bættri hagstjórn á Íslandi verður að öllum líkindum stigið í haust en stefnt er að innleiðingu fjármálareglna sem munu ná bæði til afkomu og skulda hins opinbera. Þó slíkum reglum beri að fagna taka þær ekki á megin vandamáli opinberra fjármála á Íslandi. Vandinn liggur á útgjaldahliðinni. Þetta kemur m.a. fram í nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
„Stofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa lagt aukna áherslu á innleiðingu útgjaldareglu samfara öðrum fjármálareglum. Nauðsynlegar endurbætur á rekstri hins opinbera munu fremur nást með útgjaldareglu samfara öðrum fjármálareglum. Til marks um mikilvægi útgjaldareglu til viðbótar fjármálareglnanna sem stjórnvöld hafa þegar boðað þá uppfyllti rekstur hins opinbera skilyrði bæði skulda- og afkomureglunnar árin 2006 og 2007. Þau ár uxu útgjöld hins opinbera mikið og juku þenslu í hagkerfinu en útgjaldareglan hefði komið böndum þar á.“
Eins og fram kom úttekt efnahagssviðs SA í síðustu viku (sjá hér) er viðvarandi útgjaldavöxtur hins opinbera umfram hagvöxt ekki sjálfbær til langs tíma og ríkisútgjöld sem ítrekað fara út fyrir ramma fjárlaga draga úr trúverðugleika fjárlagagerðar.
„Hvort tveggja viðgengst í opinberum fjármálum á Íslandi og hvorugt er ásættanlegt. Til að tryggja agaða og ábyrga fjármálastjórn hins opinbera þarf því samfara þeim breytingum sem boðaðar eru í haust að lögbinda útgjaldareglu. Slík regla myndi takmarka árlegan útgjaldavöxt og þannig þvinga stjórnvöld til að halda sig innan þess ramma sem settur er fram.“
Greiningu efnahagssviðs SA má nálgast hér að neðan: