Þjónustutrygging í heilbrigðisþjónustu meginstef í nýjum tillögum SA
Í nýjum tillögum varðandi úrbætur á íslensku heilbrigðiskerfi sem kynntar voru á fundi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka verslunar og þjónustu í dag kemur m.a. fram áskorun samtakanna um innleiðingu á þjónustutryggingu í þágu þeirra sem þjónustuna nýta. Hugmyndin er að sænskri fyrirmynd og byggir á auknu gagnsæi og tryggingu notanda fyrir því að úrlausn mála fáist innan skilgreindra tímaviðmiða.
„Ef fyrirsjáanlegt er að ekki verði unnt að veita þjónustu í heilbrigðiskerfinu innan tímamarka sem við höfum skilgreint og komið okkur saman um ætti notanda að vera heimilað að sækja þjónustuna annars staðar frá – hjá einkaaðilum hér á landi eða erlendis ef svo ber undir. Slík leið ætti að vera án viðbótarkostnaðar fyrir einstaklinginn.“
sagði Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA meðal annars á fundinum.
Hann sagði jafnframt að tilefni fundarins væri óumdeildur umrótartími í heilbrigðismálum og útgáfa þessara tillagna SA og SVÞ sé innlegg samtakanna í þá mikilvægu umræðu sem nú á sér stað í samfélaginu. Hann segist vonast til að þær hljóti góðan hljómgrunn, sér í lagi í nálgun nýrrar ríkisstjórnar að kosningum loknum.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Hugmyndirnar sem kynntar voru á fundinum í dag snúa með einum eða öðrum hætti að því að kerfið sé endurhugsað, verkefnin skilgreind og afmörkuð og að fjárveitingar tengist beint verkefnum hverju sinni óháð því hver veitir þjónustuna. Lífskjarasókn, hraðar tækniframfarir og breytt aldurssamsetning þjóðarinnar leiða af sér nýjar áskoranir í heilbrigðiskerfinu. Áskoranir næstu áratuga munu snúa að því hvernig íslenskt samfélag getur boðið upp á framúrskarandi heilbrigðisþjónustu án þess að stórauka kostnað almennings af því að njóta hennar. Þessu verður ekki mætt nema með aukinni skilvirkni þar sem gæði og öryggi eru ávallt höfð að leiðarljósi. Þetta eru meginstefin í tillögum samtakanna.
Á fundinum fjallaði Björn Zoega, forstjóri Karolinska spítalans í Svíþjóð um það hvernig staðan í íslensku heilbrigðiskerfi birtist honum þegar hann horfir heim frá Svíþjóð þar sem hann starfar í dag.
„Við þurfum bæði á einkarekstri og opinberum rekstri að halda. Ég held það styðji hvort við annað en það verða að vera gerðar kröfur á einkareksturinn. Ég er vanur því hér í Svíþjóð að það eru gerðar meiri kröfur á gæði og framlag heldur en hjá hinu opinbera.“
-Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð
Auk þjónustutryggingar kemur fram í tillögunum áhersla á að bætt sé úr grafalvarlegri stöðu sem ríkir varðandi samninga við fjölmarga aðila sem starfa í heilbrigðisþjónustu. Þar er meðal annars fjallað um það hvernig ómarkviss kaup á heilbrigðisþjónustu leiða af sér ógagnsæi og takmarkaða skilvirkni. Gera þurfi stórátak í kostnaðar- og þarfagreiningum sem liggja að baki samninga við ólíka rekstraraðila og sporna gegn því að heilu stéttirnar starfi mánuðum og árum saman samkvæmt löngu útrunnum samningum eða án nokkurra samninga.
Gunnlaugur Sigurjónsson, læknir og stofnandi Heilsugæslunnar Höfða
,,Það hefur verið tilhneiging núverandi stjórnvalda að grafa undan fjármálalíkaninu en þegar fjármagn er veitt framhjá líkani í einstakar rekstrareiningar er veirð að brjóta á jafnræði þegnanna til þjónustu. Sumir fá þá meira fjármagn en aðrir. Ekkert gagnsæi er í meðferð þeirra fjármuna. Heilsugæslan er grunnur heilbrigðiskerfisins og allir vita hvað gerist með hús sem byggir á sandi.”
-Gunnlaugur Sigurjónsson, læknir og stofnandi Heilsugæslunnar Höfða.
Auk þess var fjallað um mikilvægi nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu, forvarnir og stafrænni nálgun og þróun.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi Köru Connect
„Það eru tækifæri í því að bæta og straumlínulaga heilbrigðisþjónustu án þess að auka kostnaðinn mikið. Kostnaður mun aukast á næstunni og því verðum við að fara í stefnumótandi breytingar,“ segir Þorbjörg í samtali við Fréttablaðið. Til dæmis gætu grunnar kerfisins talað saman óháð þjónustuveitanda. Hið opinbera fari ekki í stafrænar breytingar hvert fyrir sig heldur horfi á þetta út frá notandanum. Hver sjúklingur þarf að tala við mjög mörg kerfi, það á að brjóta kerfið upp þannig að það skipti ekki máli hvort hann sé að tala við Tryggingastofnun eða spítalann.“
- Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi Köru Connect
Mikil aðsókn var á fundinn og á þriðja þúsund manns horfði á streymið.