Teflt á tæpasta vað - Umsögn SA um fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar

Fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar ber með sér að treyst sé á bata í ríkisfjármálunum samhliða auknum hagvexti. Til að svo megi verða þarf að bæta gæði ríkisútgjalda og rekstrarumhverfi fyrirtækja. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur m.a. fram að skortur á aðhaldi sé áhyggjuefni á sama tíma og vaxtastig fer hækkandi. Þá er ljóst að hagvöxtur framtíðar mun ekki leysa allan vanda og skerpa þarf á stefnu um viðbrögð.

Áherslur atvinnulífsins eru þríþættar: 

Aukin árangurstenging og endurmat útgjalda 

Höfuðmáli skiptir að tryggt sé að fjárveitingar skili tilætluðum árangri með markvissu endurmati útgjalda. Ræða þarf niðurstöðurnar í samhengi við fjárlagagerð, enda stuðlar það að samhengi markmiðasetningar og fjárveitinga. Íslensk stjórnvöld hafa nýlega hafið slíka vinnu en í hana þarf að setja stóraukinn kraft svo tryggja megi gæði ríkisútgjalda.

Lækkun álaga og einföldun regluverks 

Til að öflugur hagvöxtur verði að veruleika þarf að styðja við atvinnulífið í orði og verki. Ein helsta hindrun fyrirtækja í þessum efnum er launakostnaður sem þróast hefur úr takti við verðmætasköpun. Þá mun tryggingagjaldið, sem leggst ofan á laun, hækka um áramótin. Framlengja ætti lækkun tryggingagjalds og fylgja eftir tillögum OECD til umbóta á regluverki til að mynda í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.

Umbætur á vinnumarkaðslíkaninu 

Að lokum er nauðsynlegt að bæta umgjörð kjarasamningagerðar til að draga megi úr þeim óþarfa samfélagskostnaði sem samningagerðinni fylgir. Væru kjarasamningar á Íslandi jafnmargir og á Norðurlöndum m.v. höfðatölu ættu þeir að vera á bilinu 15-30 en ekki 330 eins og nú er. Mikilvægar umbætur á vinnumarkaðslíkaninu eru til þess fallnar að stuðla að skilvirkari kjarasamningagerð, launahækkunum í takti við verðmætasköpun og heilbrigðari vinnumarkaði, öllum til hagsbóta.

Hér má lesa umsögnina í heild sinni