Stoðkerfi starfsmenntamála óhemju flókið

Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífs, flutti opnunarávarp á málþingi Starfsmenntaráðs, Framtíðarsýn í starfsmenntun, sem jafnframt var félagsfundur Menntar. Gústaf á sæti í Starfsmenntaráði og er formaður stjórnar Menntar. Í opnunarerindi sínu fagnaði Gústaf m.a. því mikla stefnumótunar- og endurskipulagningarstarfi sem nú á sér stað víða í starfsmenntakerfinu og í stoðkerfi þess. Hann sagði verkefnin mörg og brýn og minnti á að hlutverk hinna ýmsu samstarfs- og fræðslufyrirtækja væri jú að svara eftirspurn fólks og fyrirtækja, veita þjónustu, skapa og efla - leggja grunn að sem bestri nýtingu á þeim mannauði sem íslenskur vinnumarkaður hefði á að skipa.

Ástæða til að losa enn frekar um aðkomu ríkisvaldsins?

Gústaf sagði eftirspurn atvinnulífs og launafólks eftir starfsmenntun vera síbreytilega og þróast ört, oft og í vaxandi mæli hraðar en hið formlega menntakerfi hefði með góðu móti tök á að gera. Verkaskipting ríkisvalds og atvinnulífs væri þess vegna í brennidepli. Samtök fyrirtækja og launafólks á sviði verslunar og þjónustu hefðu til dæmis á undanförnum árum ítrekað tekið frumkvæði, og þróað námsleiðir á ólíkum skólastigum til að mæta eftirspurn innan greinarinnar. Sagði Gústaf þau eiga mikið hrós skilið.

"Atvinnulífið getur verið best til þess fallið að skipuleggja starfsnám innan einstakra greina, oft í samstarfi við tiltekna fræðsluaðila, eins og þessi dæmi og fjölmörg önnur sýna. Ég nefni líka endurmenntun í rafiðnaði, prentiðnaði og víðar. Er kannski ástæða til að losa enn frekar um aðkomu ríkisvaldsins að starfsmenntamálum? Á ekki meginreglan einfaldlega að vera sú að opinbert fjármagn fari þangað sem viðurkenndir aðilar eru að svara raunverulegri eftirspurn?," spurði Gústaf.

Flókið stoðkerfi

Loks sagði Gústaf stoðkerfi starfsmenntamála vera eilíft umræðuefni. "Það er svo flókið að einungis örfáir innvígðir, kannski fjórðungur þeirra sem hér sitja, geta talist hafa þar þokkalega yfirsýn. Af hálfu menntamálaráðherra er kerfið nú til endurskoðunar, sem fyrr segir. Er óhætt að fækka starfsgreinaráðum? Geta stofnanir atvinnulífsins tekið að sér þjónustu við þau? Atvinnulífið sjálft er ekki barnanna best þegar kemur að uppbyggingu flókinna strúktúra á þessu sviði, þ.e. aðilar vinnumarkaðarins. Stundum virðist sem menn missi eilítið sjónar á markmiðum starfseminnar en leggi sig full mikið fram við að framleiða fleiri kennitölur, fleiri heimasíður, lógó, stjórnir, ársreikninga o.s.frv. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins var meðal annars ætlað að ná sem flestum þessara aðila undir eitt þak, en þar hefur einungis náðst takmarkaður árangur í þeim efnum." Gústaf minnti hins vegar á að þau ánægjulegu tíðindi hefðu orðið á dögunum að fjórar fræðslumiðstöðvar iðngreina hefðu sameinast í Iðunni, undir einni kennitölu, og sagði hann að þar hefði án efa verið lagður grunnur að öflugra fræðslustarfi, betri nýtingu á takmörkuðum björgum og betri þjónustu. Óskaði Gústaf þeim sem þar komu að máli innilega til hamingju og óskaði þeim velfarnaðar.

Sjá opnunarávarp Gústafs.

Sjá dagskrá málþings Starfsmenntaráðs og félagsfundar Menntar.