Skólagjöld og rekstrarform háskóla

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með umræðunni um skólagjöld og rekstrarform háskóla að undanförnu. Stuðningur við skólagjöld í háskólanámi og breytt rekstrarform ríkisháskólanna fer vaxandi og það virðist eingöngu vera spurning um tíma hvenær frekari þróun verður á þessum sviðum. Samtök atvinnulífsins hafa lengi haldið fram ágæti fjölbreytilegra rekstrarforma og að skilgreina þurfi svigrúm til skólagjalda fyrir aukna þjónustu menntafyrirtækja, sem ekki komi í stað lögbundinna framlaga hins opinbera.

Stjórnunarréttur og sveigjanleiki
Ein helstu rökin fyrir breyttu rekstrarformi ríkisháskóla eru þau að auka þarf stjórnunarrétt og svigrúm stjórnenda í skólum sem nú eru í opinberum rekstri. Í nýlegri skýrslu SA um leiðir til lífskjarabóta með kerfisumbótum er að finna ítarlega umfjöllun um tvískiptan vinnumarkað á Íslandi og minni sveigjanleika á þeim opinbera en hinum almenna. SA hafa þær upplýsingar beint frá stjórnendum við fleiri en einn ríkisháskóla að fyrir þá sé afar brýnt að losna undan hamlandi og ósveigjanlegu lagaumhverfi hins opinbera vinnumarkaðar. Þeir kvarta m.a. undan því að of erfitt sé að segja upp fólki, en háskólar og einstakar deildir innan þeirra verða að geta brugðist skjótt við breyttum aðstæðum. Breyttu rekstrarformi gæti jafnframt fylgt aukið fjárhagslegt sjálfstæði og eðlilegra samkeppnisumhverfi.

Skólagjöld: meiri kröfur og styttri námstími
Aðsókn að Háskólanum í Reykjavík og Viðskiptaháskólanum á Bifröst hefur verið gríðarleg, þrátt fyrir að þar þurfi nemendur að greiða hundruð þúsunda í skólagjöld, sem ekki þarf við ríkisháskólana. Nemendur við þessa skóla gera eðli málsins samkvæmt miklar kröfur, sem og kennarar og stjórnendur. Það sama gildir auðvitað í flestum tilfellum einnig um ríkisháskólana, en skólagjöldin fela hins vegar óneitanlega í sér aukinn hvata. Svipaða sögu má segja um nemendur og foreldra varðandi önnur skólastig, sbr. Verzlunarskóla Íslands og einkarekna grunnskóla. Þá er athyglisvert að í nýlegri skýrslu um íslensk efnahagsmál bendir OECD á að lítil kostnaðarþátttaka nemenda virðist vera helsta ástæða fremur langs námstíma íslenskra háskólanema.

Hér á landi eru skólagjöld við háskóla lánshæf þannig að þau munu ekki hindra neinn í því að stunda nám. En reyndar er það svo að víða þar sem skólagjöld tíðkast gera reglur ráð fyrir því að viðkomandi stofnanir noti einhvern hluta tekna sinna til að styrkja nemendur sem standa sig vel í námi en eru þurfandi fjárhagslega.

Hugmyndin um gjaldfrelsi í háskólanámi sprungin
Háskólanám er ekki lengur bundið við fáeinar deildir embættismannanáms. Mikil aukning á aðsókn í háskólanám er þjóðfélagslega mjög jákvæð þróun sem m.a. má rekja til þess aukna fjölbreytileika og valfrelsis sem nýir háskólar hafa haft í för með sér. Hlutfall háskólamenntaðra á íslenskum vinnumarkaði hefur lengi verið með lægra móti í samanburði við nágrannalönd, en horfur eru á breytingum til betri vegar í þeim efnum og var ekki vanþörf á. Við þessar aðstæður er hins vegar hugmyndin um gjaldfrelsi í háskólanámi í raun sprungin, því að möguleikarnir á að bjóða upp á nýja valkosti eru óþrjótandi og eftirspurnin endalaus. Innheimta skólagjalda gefur kost á meiri sjálfstýringu í uppbyggingu skólakerfisins og tryggir þannig tengsl hennar við þá eftirspurn sem til staðar er.

Tímabært útspil viðskipta- og hagfræðideildar HÍ
Sú ákvörðun viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands að óska eftir því að tekin verði upp skólagjöld í meistaranámi við deildina er því tímabært útspil og án efa eingöngu fyrsta skrefið á löngu ferli.

Menntun er fjárfesting. Menntakerfið er grunnur að samkeppnishæfni atvinnulífsins og öflugt menntakerfi er því hagsmunamál fyrirtækja, einstaklinga og þjóðfélagsins alls. Það er hins vegar ekkert eðlilegra en að nemendur taki sjálfir einhvern þátt í þeim beina kostnaði sem háskólanám þeirra felur í sér og nýtist þeim á alþjóðlegum vinnumarkaði. Þar fyrir utan veita skólagjöld aukið aðhald og stuðla þannig að auknum kröfum, auk þess að gefa kost á meiri sjálfstýringu í uppbyggingu skólakerfisins sem tryggir tengsl hennar við þá eftirspurn sem til staðar er.

Gústaf Adolf Skúlason.