Samstarf um innleiðingu jafnlaunastaðals
Heildarsamtök launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda hafa tekið höndum saman um innleiðingu jafnlaunastaðals á vinnumarkaði. Markmið jafnlaunastaðalsins er að auka gagnsæi og gæði í launaákvörðunum og auðvelda atvinnurekendum að viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað sínum. Grunnforsenda staðalsins er að einstaklingar hjá sama atvinnurekanda njóti sambærilegra kjara og réttinda fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Skrifað var undir samkomulag 13. nóvember um fræðslu og ráðgjöf við innleiðingu staðalsins
Jafnlaunastaðallinn (ÍST 85:2012) er afurð áralangs samstarfs heildarsamtaka launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda. Staðallinn er byggður upp eins og alþjóðlegir stjórnunarstaðlar og fyrirtæki og stofnanir sem vilja nýta hann þurfa að uppfylla kröfur staðalsins og hljóta sérstaka vottun geri þau það.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur nú þegar leitt tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals hjá ellefu stofnunum ríkisins, tveimur sveitafélögum og átta einkafyrirtækjum. Vonast er til að fyrstu stofnanirnar og fyrirtækin geti fengið úttekt og vottun á jafnlaunakerfi sínu á vormánuðum ársins 2015. Fyrirtæki og stofnanir sem hljóta vottun verður heimilt að nota nýtt jafnlaunamerki til að sýna með skýrum hætti að hjá þeim sé jafnrétti í hávegum haft.
Til að tryggja að innleiðing jafnlaunastaðalsins gangi vel fyrir sig verður leitað til fræðslusetra og ýmissa fræðslusjóða aðila vinnumarkaðarins. Námskeið verða t.d. haldin fyrir starfsmenn stofnana og fyrirtækja þar sem farið verður yfir starfaflokkun, launagreiningu og skjölun í samræmi við þær kröfur sem eru gerðar til þeirra sem taka upp staðalinn. Starfsmennt mun undirbúa námskeiðin og þróa, en áætlað er að þau verði fjögur talsins og um þriggja klukkustunda löng hvert.
Sjá nánar:
Samstarfslýsing um innleiðingu jafnlaunastaðals: ÍST 85:2012