Samkeppnislögin harðari og þrengri hér

Nýlegar breytingarnar á dönsku samkeppnislögunum miða að því að skerpa og herða ákvæði laganna. Þrátt fyrir þessar breytingar í Danmörku verður að telja að samkeppnislög og framkvæmd þeirra sé í ýmsum atriðum mun harðari og þrengri hér á landi en þar.

Nýlegar breytingarnar á dönsku samkeppnislögunum miða að því að skerpa og herða ákvæði laganna. Með breytingunum eru dönskum samkeppnisyfirvöldum m.a. fengnar auknar heimildir við framkvæmd húsleitar og sektarákvæði laganna hert. Breytingarnar hafa að vonum vakið áhyggjur og andmæli í dönsku atvinnulífi. Hins vegar er eftirtektarvert að bera dönsku samkeppnislögin saman við þau íslensku. Þrátt fyrir þessar breytingar í Danmörku verður að telja að lögin sjálf og framkvæmd þeirra sé í ýmsum atriðum mun harðari og þrengri hér á landi en þar.

Sektarheimildir og sektarfyrirmæli
Sem dæmi má nefna að í Danmörku er yfirvöldum heimilt að dæma sektir vegna brota. Hér á landi er sekt aftur á móti fortakslaus og einnig heimilt að dæma til fangelsisvistar. Reyndar hefur það árum saman verið gagnrýnt að réttarfar er með harla sérstæðum hætti á sviði samkeppnismála á Íslandi. Samtök atvinnulífsins hafa m.a. bent á að réttaröryggi er ekki nægilega tryggt, og andmælaréttur og jafnræði málsaðila er ekki fyrir hendi eins og skipulag Samkeppnisstofnunar er nú. Hafa Samtök atvinnulífsins því lagt til að Samkeppnisráð verði lagt niður og reglum um málsmeðferð og málskot breytt.

Afritun gagna við húsleit
Í Danmörku verða yfirvöld að taka afrit af gögnum við húsleit og verða að skila gögnum aftur innan þriggja vinnudaga ef afritun hefur reynst óframkvæmanleg við húsleit. Hérlendis eru engin sambærileg ákvæði um meðferð gagna.

"Minniháttarreglan"
Við samráð fyrirtækja er beitt svokallaðri minniháttarreglu. Hér á landi er samráð bannað ef fyrirtæki hafa samanlagt 5% markaðshlutdeild við svokallað lárétt samráð en 10% við lóðrétt samráð. Í Danmörku gildir minniháttarregla ef fyrirtæki hafa samanlagt minna en einn milljarð danskra króna í veltu og mest 10% markaðshlutdeild, eða samanlagt minna en 150 milljónir danskra króna í veltu (án tillits til markaðshlutdeildar).

Veltumörk samruna
Dönsk yfirvöld geta bannað samruna ef fyrirtæki hafa samanlagt meira en 3,8 milljarða danskra króna í veltu og hvert þeirra minnst 300 milljónir d.kr. í veltu. Einnig má banna samruna ef eitt af fyrirtækjunum hefur meira en 3,8 milljarða d.kr. í veltu í Danmörku sjálfri og eitt þeirra hefur 3,8 milljarða d.kr. í veltu í heiminum yfirleitt. Hér á landi gildir aftur á móti að samruna má banna ef samanlögð velta er einn milljarður íslenskra króna og tvö fyrirtækjanna hafa a.m.k. 50 milljóna ísl. króna ársveltu. Rétt er að hafa í huga að t.d. 5. sept. 2002 var gengi danskrar krónu 11,84 ísl. kr.

Markaðssvæði skilgreind
Margvíslegar skilgreiningar ráða úrslitum um ákvarðanir samkeppnisyfirvalda. Skilgreiningar á sérmarkaði og markaðssvæði skipta verulegu máli. Í Danmörku hefur athugun leitt í ljós að aðeins í um 9% mála hafa samkeppnisyfirvöld miðað við markaðssvæði sem er minna en öll Danmörk, og í 11% mála hafa þau skilgreint ennþá stærra markaðssvæði. Oft er talað um höfuðborgarsvæðið á Íslandi sem sérstakt markaðssvæði, þar sem búa um 175 þúsund manns, og þá er ekki tekið tillit til þess að landsmenn allir, um 283 þúsund manna, nota markaðinn á höfuðborgarsvæðinu meira og minna. Til samanburðar má nefna að í Danmörku búa um 5,3 milljónir manna svo að ljóst má vera að samkeppnisumhverfi er þar allt annað en hérlendis.

Ekki aðeins hlutföll
Þær stærðartölur sem hér hafa komið fram miðast að nokkru leyti við hlutföll, þ.e. hve hátt hlutfall velta fyrirtækja sé af markaðinum. Danir eru tæplega 20 sinnum fleiri en Íslendingar, og þá er því haldið fram að eðlilegt sé að viðmiðanir um fyrirtæki hljóti að verða miklu lægri hérlendis. En í lögunum um bann við samruna eru heimildir Dana 40 sinnum hærri en þau mörk sem íslensk samkeppnisyfirvöld nota. Auk þessa byggist rekstrargrundvöllur fyrirtækis alls ekki aðeins á hlutföllum af stærð markaðar, heldur fremur á vægi og umfangi fjárfestingar, stærðarhagkvæmni og fleiri slíkum þáttum. Íslensk lagaákvæði geta því komið í veg fyrir að myndarleg fyrirtæki, á alþjóðlegan mælikvarða, geti þrifist á Íslandi yfirleitt.

Skýrsla SA
Í samanburði við samkeppnisreglur Dana og miðað við mannfjöldamun á Íslandi og í Danmörku o.s.frv. virðist augljóst að íslenskar reglur séu óhæfilega strangar og þröngar. Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað farið fram á endurskoðun samkeppnislaganna og gáfu m.a. út ítarlega skýrslu um þau í maí sl., þar sem íslensku samkeppnislögin eru borin saman við Evrópuréttinn og samkeppnislög nágrannaríkjanna, og tillögur gerðar til úrbóta. Skýrsluna má nálgast á hér (pdf-skjal).