SA leggjast gegn frumvarpi um náttúrupassa
Samtök atvinnulífsins leggjast gegn frumvarpi um náttúrupassa sem er nýr skattur, enda er alls óvíst hvort tekjur af honum muni skila sér til uppbyggingar innviða ferðaþjónustunnar. Bent er á að kostnaður við að koma skattinum á og eftirlit með honum sé að öllum líkindum vanmetinn. Að auki sé óljóst hvernig stjórnvaldssektir á erlenda ferðamenn muni skila sér í ríkissjóð. SA hafa miklar áhyggjur af alls kyns nýjum sköttum sem ríkisstjórnin undirbýr að leggja á atvinnulíf og almenning í landinu en tillögur um skattana hafa verið að koma fram undanfarna mánuði.
Í umsögn samtakanna er bent á að ríkið og stofnanir þess hafi heimildir til að leggja á alls kyns þjónustugjöld og að unnt sé að innheimta gjald fyrir bílastæði, heimreiðir, salerni, gestastofur og fleira í ríkari mæli en nú er gert. Sjálfsagt sé að fara yfir þessa gjaldtökuheimildir og hvernig þær geta nýst.
SA segja að lokum í umsögn sinni:
„Almenn uppbygging innviða og styrking almenns öryggis verði enn um sinn fjármögnuð með beinum framlögum úr ríkissjóði og þá munu sívaxandi tekjur af enn fleiri ferðamönnum koma að góðum notum án þess að gripið sé til enn einnar skattlagningar eins og náttúrupassa. Við frekari vinnslu þessa máls er mikilvægt að hafa sem nánast samráð við ferðaþjónustuna og tryggja sem víðtækasta samstöðu um þá leið sem valin verður.“
Sjá nánar: