Ófullnægjandi aðhald ríkisfjármála
Íslenska ríkið hefur í kjölfar fjármálahrunsins glímt við talsverðan hallarekstur og háar skuldir. Þrátt fyrir að nú sex árum síðar stefni í afgang af rekstri ríkissjóðs hefur aðhald á útgjaldahlið ekki verið fullnægjandi. Þetta kemur fram í nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins þar sem m.a. er fjallað um hvort breytinga er að vænta í fjárlögum 2015?
„Stjórnvöld settu fram fjögurra ára rammaáætlun í ársbyrjun 2009 til að koma á jafnvægi í ríkisrekstri. Tilgangur áætlunarinnar var að auka festu í útgjaldastýringu ríkisins og stuðla að aðhaldi í rekstri. Lagt var upp með að farin yrði blönduð niðurskurðar og skattahækkana til að ná settum markmiðum. Á endanum reyndist niðurskurður ríkisútgjalda ekki nægjanlegur og meginþungi aðlögunarinnar hefur því verið í formi skattahækkana.
Framúrkeyrsla ríkisútgjalda er viðtekin venja og eftirfylgni áætlana verulega ábótavant. Mikilvægt er að fjárlög 2015 verði aðhaldssöm og að dregið verði enn frekar úr útgjöldum. Að öðrum kosti myndast lítið svigrúm til að greiða niður skuldir og lækka vaxtakostnað ríkisins. Í ljósi reynslunnar er þó ekki nóg að setja fram metnaðarfull markmið um niðurskurð heldur þarf að tryggja að slíkum markmiðum sé framfylgt.“
Greiningu efnahagssviðs SA má nálgast hér að neðan:
Ófullnægjandi aðhald ríkisfjármála. Er breytinga að vænta í fjárlögum2015?