Mikil gróska á Litla Íslandi

Starfsmönnum lítilla og meðalstórra fyrirtækja (með allt að 250 starfsmenn) fjölgaði um 1.400 (3%) milli 2012 og 2013. Heildarlaunagreiðslur í atvinnulífinu námu 584 milljörðum króna árið 2013 og jukust um 8% frá árinu 2012. Heildarlaunagreiðslur jukust um 9% hjá örfyrirtækjum, 10% hjá litlum fyrirtækjum, 9% hjá meðalstórum fyrirtækjum og 6,5% hjá stórfyrirtækjum. Þetta sýnir ný úttekt Hagstofu Íslands sem unnin var fyrir Samtök atvinnulífsins og Litla Ísland sem er vettvangur þar sem smá fyrirtæki vinna saman óháð atvinnugreinum. 

Árið 2013 voru 2.400 fyrirtæki starfandi sem ekki voru til árið 2012. Langflest þeirra eru svokölluð örfyrirtæki en þeim fjölgaði um 17% milli ára. Á hverju ári er mikill fjöldi fyrirtækja stofnaður og fjölmörg fyrirtæki hætta einnig starfsemi en 2013 hættu 1.900 fyrirtæki starfsemi sem voru starfandi 2012.

Meðaltekjur starfsmanna fara hækkandi með stærð fyrirtækja. Meðaltekjur í litlum fyrirtækjum voru 384.000 kr. á mánuði árið 2013, 434.000 í meðalstórum fyrirtækjum en 464.000 kr. í stórum fyrirtækjum. Meðallaunin voru þannig 12% hærri í stórum fyrirtækjum en í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Hagtölur um fyrirtæki eftir stærð eru ekki birtar hér á landi en liggja almennt fyrir í nágrannaríkjunum og eru m.a. birtar á vef ESB árlega. Upplýsingar ESB fjalla um fjölda fyrirtækja, starfsmannafjölda og virðisauka eftir stærð fyrirtækja í mismunandi atvinnugreinum. Upplýsingarnar gefa færi á að leggja mat á mikilvægi smárra, meðalstórra og stórra fyrirtækja í sköpun atvinnu og verðmæta. Jafnframt er unnt að leggja mat á þróunina, t.d. hvaða stærðarflokkar fyrirtækja eru í örustum vexti og leggja mest til fjölgunar starfa og aukinnar verðmætasköpunar.

Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að sambærilegar upplýsingar séu útbúnar um íslenskt atvinnulíf. Af því tilefni var þess farið á leit við Hagstofu Íslands í annað sinn að útbúa fyrirtækjatölfræði um íslenskt atvinnulíf á grundvelli staðgreiðsluskrár RSK. Enn er staðgreiðsluskráin í vinnslu og þróun til nýtingar við hagskýrslugerð og því verður að líta á niðurstöður sem bráðabirgðaniðurstöður, sem þó gefur góða vísbendingu um stöðu mála. Gögnin eru þeim annmörkum háð að þau innihalda ekki upplýsingar um stóran hluta einyrkja.

Ísland sker sig ekki úr hvað varðar hlutfallslegan fjölda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í ESB er hlutfall þeirra 99,8% og 99,7% í Svíþjóð, samanborið við 99,8% á Íslandi

Sjá nánar ítarlega samantekt SA fyrir Litla Ísland hér að neðan:

Vægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Ísland og alþjóðlegur samanburður (PDF)

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samorka eru bakhjarlar Litla Íslands.

Litla Ísland er á Facebook: www.facebook.com/litlaisland