Lítið framboð hækkar íbúðaverð

Allt bendir til þess að framboðsskortur íbúða á höfuðborgarsvæðinu muni fara vaxandi á næstu þremur árum. Samtök atvinnulífsins telja að í árslok 2016 hafi skort að minnsta kosti tvö þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæðisvandann má fyrst og fremst rekja til lítillar uppbyggingar á síðustu árum og framborðsskort af þeim völdum. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða strax til að auka framboð íbúða svo hægt sé að mæta þessari þörf. Annars mun skorturinn ýta enn frekar undir hækkun húsnæðisverðs.

Óskuldsettar verðhækkanir
Íbúðaverð hefur hækkað umfram almennt verðlag og launatekjur á undanförnum árum. Ólíkt síðustu uppsveiflu þá byggja verðhækkanir á húsnæðismarkaði ekki á aukinni skuldsetningu heldur eru þær drifnar áfram af auknum tekjum almennings. Heimili hafa nýtt eina lengstu uppsveiflu Íslandssögunnar í að greiða niður skuldir og hefur hrein eignastaða heimila sjaldan verið betri.

Húsnæðiskostnaður ekki hár í alþjóðlegum samanburði
Aðgengi að lánsfé er gott í dag; vextir hafa lækkað og lánshlutföll eru há. Íslendingar eyða svipuðu hlutfalli af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði og meðal Evrópubúi.

Íbúðaþörf eykst til muna
Mannfjöldaspá Hagstofunnar hefur tekið verulegum breytingum og er nú gert ráð fyrir að árleg fjölgun landsmanna verði álíka mikil og þegar mest lét árin 2006-2008 og vari í lengri tíma. Lágt atvinnuleysi og skortur á vinnuafli leiðir til fjölgunar á erlendu vinnuafli og er það megin drifkraftur væntrar fjölgunar. Það sem af er þessu ári hafa aðfluttir umfram brottflutta mælst 7.000 manns og er það hraðasta fjölgun frá því mælingar hófust. Rætist spá Hagstofunnar mun árleg eftirspurn eftir nýju húsnæði á næstu árum verða töluvert meiri en hingað til.

Framboðsskorturinn verður viðvarandi á komandi árum. Frá árinu 2009 hefur ekki verið nægilega mikið byggt á höfuðborgarsvæðinu til að mæta eftirspurn eftir íbúðum. Það hefur myndað viðvarandi framboðsskort og ýtt undir verðhækkanir fasteigna. Áhersla á uppbyggingu á þéttingarreitum er rökrétt skref en sú stefna hefur þó reynst tímafrek og hægt á fjölgun íbúða. Þétting byggðar þarf því að eiga sér stað alls staðar á höfuðborgarsvæðinu. Miðað við áætlanir mun framboð aukast áfram, en hvorki nægilega mikið né nægilega hratt. Gangi núverandi áætlanir eftir mun ekki takast að vinna upp framboðsskortinn á næstu árum og í árslok 2020 má reikna með að enn muni vanta 2.500 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.

Leysir opinber stuðningur húsnæðisvanda vegna framboðsskorts?
Þrátt fyrir að lengi hafi verið varað við framboðsskorti, og hann ætti því ekki að koma á óvart, þá hafa úrræði hins opinbera og tillögur til að leysa húsnæðisvandann að litlu leyti beinst að framboðshlið húsnæðismarkaðar. Flestar hafa þær stutt við eftirspurnarhliðina og því fremur til þess fallnar að ýta undir frekari hækkun fasteignaverðs.

Aðgerða er þörf svo íbúðum fjölgi. Þegar vandamálið er framboðsskortur þá ætti aðkoma stjórnvalda fyrst og fremst að miða að því að liðka fyrir uppbyggingu. Hið opinbera má ekki vera flöskuháls þegar vinna þarf hratt til að mæta aðsteðjandi vanda. Aukið framboð er heppilegasta leiðin til að vinna gegn skorti og hækkun fasteignaverðs af hans völdum.

Sjá nánar:

Ný greining efnahagssviðs SA á húsnæðismarkaði höfuðborgarsvæðisins (PDF)