Leikreglur samkeppninnar og heimildir eftirlitsaðila
Samtök atvinnulífsins og LEX lögmannsstofa efndu til morgunverðarfundar í morgun þar sem rætt var um samkeppnismál, áhrif samkeppnislaga á efnahagslífið, réttarstöðu fyrirtækja og heimildir eftirlitsaðila. Derek Ridyard, hagfræðingur og sérfræðingur í samkeppnismálum, bar saman eftirlit með markaðsaðilum á Bretlandi og Íslandi og tók dæmi máli sínu til stuðnings. Hann fjallaði sérstaklega um markaðsrannsóknir samkeppnisyfirvalda í Bretlandi þar sem heimilt er að grípa til aðgerða gagnvart skipulagi fyrirtækja án þess að lög hafi verið brotin en slíkar heimildir hafa nýlega verið leiddar í lög hér á landi.
Derek fjallaði um dæmi um hvernig þessum heimildum hefir verið beitt í Bretlandi og sagði heimildir yfirvalda ógnvænlegar sem og þær aðgerðir sem heimilt er að grípa til. Hann varaði við því að samkeppnisyfirvöld setji of sértækar reglur því það geti á endanum verið andstætt hagsmunum neytenda. Þá sagði hann Ísland vera örmarkað og vegna þess geti komið upp ýmis álitamál þegar samkeppnisyfirvöld grípa inn í rekstur fyrirtækja og beita jafnvel heimildum til að brjóta upp skipulag á markaði.
Derek hefur í meira en 25 ár sérhæft sig í umfjöllun um samkeppnismál, hann hefur unnið að umfangsmiklum dómsmálum á sviði samkeppnislaga í Evrópu í fjölbreyttum atvinnugreinum og hefur verið kallaður til sem sérfræðingur við meðferð samkeppnislagabrota víðs vegar um heiminn. Áður starfaði hann sem hagfræðingur Office of Fair Trading í London sem gætti hagsmuna neytenda.
Heimir Örn Herbertsson, hæstaréttarlögmaður hjá LEX, ræddi um réttarstöðu fyrirtækja, heimildir Samkeppniseftirlitsins til að grípa inn í rekstur fyrirtækja og málsmeðferð stofnunarinnar. Hann telur þörf á ýmsum úrbótum og bendir á að réttarstaða fyrirtækja við málsmeðferð og rannsókn samkeppnisyfirvalda sé ófullnægjandi. Það eigi t.d. við um öflun og meðferð gagna, rétt fyrirtækis til trúnaðarsamskipta við lögmann og langan málsmeðferðartíma. Heimir sagði ábendingar Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2012 sem gefnar voru út í skýrslu vera enn í fullu gildi og gott væri ef þær væru framkvæmdar.
Þá ræddi Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá SA um fákeppni í smáum hagkerfum og að smæð Íslands og landfræðileg einangrun krefðist þess að samkeppnisreglur sem mótaðar væru fyrir markaði fyrir mörg hundruð milljón neytendur væru skoðaðar í því samhengi. Taldi hún þörf fyrir að ná sátt um það að hér myndi líklega alltaf ríkja fákeppni á mörgum mörkuðum og að í litlum hagkerfum væri ekki alltaf æskilegt að það séu fjölmargir keppinautar á öllum mörkuðum. Bergþóra sagði mikilvægt að laga almenn samkeppnisskilyrði í landinu þannig að smæð landsins hefði eins lítil neikvæð áhrif á samfélagið og neytendur og mögulegt væri.
Sjá nánar:
Tengt efni: