Kjarasamningar og vinnumarkaður á Norðurlöndum
Vinnuhópur aðila vinnumarkaðarins kynnti í dag skýrslu um vinnumarkað og skipulag kjarasamninga í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Markmið með úttektinni er að leita fyrirmynda í nágrannaríkjum Íslands sem geti nýst við að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga hér á landi þannig að þeir stuðli að stöðugu verðlagi, auknum kaupmætti launa og samkeppnishæfni atvinnulífsins.
Undanfarin misseri hafa heildarsamtökin á almenna og opinbera vinnumarkaðnum fjallað um leiðir til að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Fjallað hefur verið um mikilvægi þess að mótuð verði sameiginleg sýn allra aðila vinnumarkaðarins á svigrúm atvinnulífsins og samfélagsins til aukins kostnaðar og bættra lífskjara næstu árin. Æskilegt sé að að mótuð verði sameiginlega stefna til að stuðla að vexti atvinnulífsins og efnahagslegum stöðugleika sem byggi á stöðugu gengi og lágri verðbólgu.
Skýrslu vinnuhópsins má nálgast hér að neðan ásamt kynningu Hannesar G. Sigurðssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra SA, sem fjallaði um helstu niðurstöður hennar á fundi aðila vinnumarkaðarins í morgun.
Stærstu samtök launafólks og vinnuveitenda tóku þátt í vinnunni, Samtök atvinnulífsins (SA), Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Bandalag háskólamanna (BHM), Kennarasamband Íslands (KÍ), Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytið. Ríkissáttasemjari tók einnig þátt í vinnunni ásamt því að sjá um skipulag hennar.
Sjá nánar:
GLÆRUKYNNING Á HELSTU NIÐURSTÖÐUM VINNUHÓPSINS (PDF)
Tengt efni:
Umfjöllun fréttastofu 365, 21. maí 2013 - smelltu til að horfa