Kjarasamningar gilda til loka nóvember 2013

Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins og samninganefnd Alþýðusamband Íslands skrifuðu í dag undir samkomulag vegna endurskoðunar og framlengingar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. SA og ASÍ eru sammála um að stytta samningstíma í gildandi kjarasamningum um 2 mánuði, til 30. nóvember 2013. Samtökin munu hefja nú þegar vinnu vegna næstu kjarasamninga og mótun sameiginlegrar sýnar á svigrúm atvinnulífsins og samfélagsins til launahækkana og aukins kaupmáttar á næstu árum.

SA og ASÍ munu á næstu vikum leita samstöðu um meginþætti atvinnustefnu sem hefur hagvöxt, fleiri og betri störf og bætt lífskjör á grunni stöðugleika að markmiði. Niðurstaða sameiginlegrar vinnu SA og ASÍ verður lögð fyrir stjórnmálaflokkana þannig að afstaða þeirra komi fram fyrir komandi kosningar. Í framhaldi af myndun nýrrar ríkisstjórnar verði raunhæf aðgerðaáætlun til næstu ára fullunnin.

samkomulag

Þá vilja SA og ASÍ leita samstöðu um stefnu og aðgerðir á sviði gengis- og peningamála á næstu mánuðum sem lagt geti traustari grunn að þróun verðlags og jöfnun starfsskilyrða atvinnulífsins.

Hér að neðan má nálgast samkomulag SA og ASÍ í heild sem var skrifað undir eftir hádegi í dag. Einnig samkomulag forsendunefndar SA og ASÍ.

Samkomulag SA og ASÍ um endurskoðun og framlengingu kjarasamninga 21.1. 2013

Niðurstaða forsendunefndar SA og ASÍ 21.1. 2013

Samkomulag SA og ASÍ um endurskoðun
 og framlengingu kjarasamninga 21.1. 2013

Inngangur

Forsendur kjarasamninganna frá 5. maí 2011 voru að á árinu 2012 færi kaupmáttur vaxandi, verðbólga yrði innan við 2,5%, gengisvísitala krónunnar yrði innan við gildið 190 í desember 2012 og að stjórnvöld stæðu við fyrirheit í yfirlýsingu sinni í tengslum við kjarasamningana.

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa fjallað um forsendur kjarasamninganna. Forsenda um kaupmátt hefur staðist að mati samningsaðila en ekki forsendur um gengi krónunnar og verðbólgu. Stjórnvöld hafa hvorki efnt fyrirheit um lækkun tryggingagjalds til samræmis við minnkandi atvinnuleysi né hækkun bóta almanna- og atvinnuleysistrygginga. Mikilvægustu efnahagslegu forsendur kjarasamninganna um auknar fjárfestingar í atvinnulífinu hafa ekki staðist sem að stórum hluta verður að skrifa á reikning stjórnvalda.

Kaupmáttur lægstu launa hefur haldið áfram að aukast og hluti launafólks hefur notið meiri launahækkana en samkvæmt kjarasamningi. Það er áhyggjuefni að vegna mikillar verðbólgu minnkaði kaupmáttur launa mikils fjölda launafólks á árinu 2012 og að óbreyttu eru horfur í verðlagsmálum dökkar á komandi mánuðum. Því skiptir miklu máli að verðbólga verði hamin, einkum með meiri stöðugleika í gengi krónunnar.

Samningsaðilar hafa sameinast um eftirfarandi til að stuðla að áframhaldandi samstarfi samningsaðila um uppbyggingu atvinnulífsins og auknum stöðugleika:

Stytting samningstíma og flýting viðræðna um nýjan kjarasamning

Samtökin eru sammála um að stytta samningstímann í gildandi kjarasamningum frá 5. maí 2011 til 30. nóvember 2013. Samtökin telja í því samhengi mikilvægt að samningsaðilar hefji nú þegar vinnu vegna næstu kjarasamninga, sem þarf að felast í mótun á sameiginlegri sýn á svigrúmi atvinnulífsins og  samfélagsins til launahækkana og aukins kaupmáttar á næstu árum. Ennfremur þarf að hefja sameiginlega stefnumörkun til að tryggja vöxt og viðgang atvinnulífsins og efnahagslegan stöðugleika sem byggður verði á stöðugu gengi en það eru

forsendur framfara og bættra lífskjara.

Samstaða um atvinnustefnu

Samtökin vilja á næstu vikum leita samstöðu sín á milli um meginþætti atvinnustefnu sem hefur hagvöxt, fleiri og betri störf og bætt lífskjör á grunni stöðugleika að markmiði. M.a. verði nýleg skýrsla McKinsey um sóknarfæri Íslands höfð til hliðsjónar, auk þeirrar vinnu sem unnin hefur verið á vegum samningsaðila og annarra gagna og stefnumótunar sem liggur fyrir hjá opinberum aðilum eða öðrum. Niðurstaða þessarar sameiginlegu vinnu ASÍ og SA verði lögð fyrir stjórnmálaflokkana þannig að afstaða þeirra komi fram fyrir komandi kosningar. Í framhaldi af kosningum og myndun nýrrar ríkisstjórnar verði raunhæf aðgerðaáætlun til næstu ára fullunnin.

Samstarf um mótun stefnu í gengis- og verðlagsmálum

Samtökin vilja leita samstöðu um stefnu og aðgerðir á sviði gengis- og peningamála á næstu mánuðum sem lagt geti traustari grunn að þróun verðlags og jöfnun starfsskilyrða atvinnulífsins. Byggt verði á nýlegu þverpólitísku samkomulagi um mótun peningastefnu ásamt því að áætlun stjórnvalda og Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta verði endurmetin. Óskað verður eftir samstarfi og samræðu við stjórnmálaflokkana til þess að freista þess að ná breiðu samkomulagi um stefnuna í gengis- og peningamálum til næstu ára.  Ennfremur munu ASÍ og SA beita sér fyrir aðgerðum til lækkunar verðlags, svo sem með breytingum á verðmyndun og aukinni samkeppni á neytendamarkaði, og aðhaldi að verðhækkunum fyrirtækja og gjaldskrárhækkunum opinberra aðila.

Efling starfsmenntasjóða

Á undanförnum misserum hefur samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um virkar vinnumarkaðsaðgerðir og aukna þjónustu við atvinnuleitendur skilað mikilvægum árangri. Verið er að ýta átakinu ,,Liðsstyrkur'' úr vör, þar sem þeim sem verið hafa án atvinnu í þrjú ár eða lengur verður boðið sex mánaða starfstengt úrræði. Fyrirhugað er að treysta samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda á sviði fullorðinsfræðslu og starfsmenntunar, þar sem markmiðið er að lækka verulega hlutfall þeirra einstaklinga sem ekki hafa lokið viðurkenndu námi á framhaldsskólastigi. Í þessu skyni munu samningsaðilar  á næstu mánuðum gera sérstaka áætlun um áherslur starfsmenntasjóða og eflingu þeirra á þessu sviði þannig að þeir geti staðið undir   aukinni starfsemi. Samkomulag er um að tiltekin framlög til þeirra hækki í áföngum um 0,1% eigi síðar en 1. janúar 2015 sem útfært verður í næstu kjarasamningum. Jafnframt eru aðilar sammála um að þegar á árinu 2013 muni sjóðirnir auka framlög til menntamála með því að ganga á eigið fé sitt ef með þarf.

Bætt vinnubrögð við samningsgerð

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands vilja koma að sameiginlegu borði með aðilum opinbera vinnumarkaðarins og setja markmið um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Fyrirmynda verði leitað í nágrannaríkjum okkar sem tekist hefur að auka kaupmátt samhliða lágri verðbólgu. Stefna þarf að því að sameiginleg sýn allra aðila vinnumarkaðarins á svigrúmi atvinnulífsins og samfélagsins til aukins kostnaðar og bættra lífskjara næstu árin liggi fyrir í byrjun sumars og verði mótandi í nýrri lotu kjarasamninga næsta haust.

Lífeyrismál

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands eru sammála um að vinna áfram að jöfnun lífeyrisréttinda á grundvelli þeirrar vinnu sem unninn hefur verið í sameiginlegri nefnd alls vinnumarkaðarins. Sú vinna hefur dregist m.a. vegna þess að ekki hefur náðst samkomulag milli ríkisins og opinberra starfsmanna um fortíðarvanda opinbera lífeyriskerfisins og því ekki forsendur til þess að ljúka viðræðum milli aðila á grundvelli yfirlýsingar þeirra frá 5. maí 2011. Aðilar eru sammála um að innihald yfirlýsingarinnar haldi gildi sínu.

Aðgerðir gegn svartri atvinnustarfsemi og fyrir bættu siðferði í atvinnulífinu

Samtökin eru sammála um að vinna áfram gegn svartri atvinnustarfsemi, kennitöluflakki og að bættri framkvæmd útboðsmála. Svört atvinnustarfsemi leiðir til félagslegra undirboða sem valda samfélaginu öllu, launafólki og fyrirtækjum, tjóni. Launafólk glatar mikilvægum réttindum og fyrirtæki sem virða kjarasamningsbundin réttindi og standa skil á opinberum gjöldum missa verkefni og viðskipti til þeirra sem kerfisbundið koma sér undan lög- og kjarasamningsbundnum skyldum sínum.

Alþýðusamband Íslands og Samtök avinnulífsins gera með sér eftirfarandi samkomulag á þeim grundvelli sem að framan greinir:

1. Gildistími kjarasamninga milli aðila sem undirritaðir voru 5. maí 2011 styttist til 30. nóvember 2013.

2. Iðgjöld atvinnurekenda í mennta- og fræðslusjóði hækka í áföngum um 0,1% og skal þeirri aðgerð lokið eigi síðar en 1. janúar 2015. Samningsaðilar munu í tengslum við næstu kjarasamninga útfæra nánar ráðstöfun þessarar hækkunar vegna aukinna verkefna í tengslum við átakið um að innan við 10% vinnumarkaðarins verði án viðurkenndrar framhaldsmenntunar. Ákvæði þetta á við um mennta- og fræðslusjóði aðila að kjarasamningunum 5. maí 2011 auk annarra aðila sem beint tengjast viðkomandi sjóðum með kjarasamningum. Ákvæðið á ennfremur aðeins við þar sem samið hefur verið um hlutfallsgreiðslu af launum til sjóðanna.

Tengdar fréttir:

Umfjöllun mbl Sjónvarps

Umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2

Umfjöllun fréttastofu RÚV