Hljóðlát ríkisvæðing
Á meðan háværar raddir berjast gegn einkavæðingu á opinberri þjónustu og eignum fer fram hljóðlát ríkisvæðing sem takmarkar val neytenda og framboð á vöru og þjónustu. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, en hann var meðal frummælenda á opnum fundi SA og Viðskiptaráðs Íslands sem fram fór í morgun.
Sporin hræða
Þorsteinn fjallaði í erindi sínu um samkeppnismarkaði og afskipti ríkisins af þeim en hann benti á veikleika sem fylgja inngripum samkeppniseftirlits á almennum markaði sem þrátt fyrir fögur fyrirheit geti haft neikvæðar afleiðingar fyrir neytendur. Að mati Samtaka atvinnulífsins er brýnt að endurskoða heimildir samkeppnisyfirvalda til uppskiptingar fyrirtækja enda séu þær bæði umdeildar og varasamar.
„Sporin hræða,“ sagði Þorsteinn og benti á að ekki væri nauðsynlegt skilyrði inngrips ríkisins í rekstur fyrirtækja að samkeppnislög hafi verið brotin. Óvíst sé að svo víðtækt inngrip standist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.
Þorsteinn sagði að nýleg úttekt Samkeppniseftirlitsins á eldsneytismarkaði auki ekki tiltrú á að stofnuninni sé treystandi fyrir svo víðtækum valdheimildum. Það sama eigi við ef horft er til árangurs samkeppnisyfirvalda í veigamiklum málum sem áfrýjað hafi verið til áfrýjunarnefndar eða dómstóla. Á liðnum fimm árum hafi samanlagðar sektir Samkeppniseftirlitsins verið lækkaðar um 56% í áfrýjunarferli.
„Við teljum rétt að endurskoða þessar heimildir í samkeppnislögunum sem sett voru í andrúmslofti eftirhrunsáranna þar sem engar skorður virtust vera á vilja manna til að herða regluverk,“ sagði framkvæmdastjóri SA og sagði viðlíka heimildir ekki þekkjast í nágrannalöndum okkar, þær séu allt of víðtækar.
Aukin samkeppni nauðsynleg
Samtök atvinnulífsins telja að forgangsmál samkeppnisyfirvalda á komandi árum ættu að snúa að mörkuðum þar sem hið opinbera er allsráðandi og samkeppni lítil fyrir vikið. Eignarhald ríkisins er allsráðandi á mörkuðum á borð við orkuvinnslu, heilbrigðis- og menntakerfi og nú síðast fjármálamarkaði.
Mörg tækifæri má finna á þessum mörkuðum til að auka samkeppni og þar með framleiðni í innlendri þjónustu. Til dæmis má nefna að 72% bankakerfisins er komið í opinbera eigu. Markaðshlutdeild hins opinbera í heildarútlánum til heimila hefur aukist stórkostlega á undanförnum árum.
Þorsteinn benti á að með því því að selja hluta eigna hins opinbera væri hægt að tryggja ríkissjóði 600 milljarða tekjur á næstu árum sem væri hægt að nýta til að greiða niður þriðjung skulda ríkisins og spara þar með dýrkeyptan vaxtakostnað. Eignarhald hins opinbera í íslensku atvinnulífi sé mun víðtækara en þekkist í nágrannalöndunum.
Þorsteinn sagði að lokum að viðbrögðin í kjölfar hrunsins 2008 hafi einkennst af meiri einangrunarhyggju og haftabúskap en í nágrannalöndum okkar. Margt bendi til þess að Íslendingar séu að endurtaka fyrri mistök. Aukin reglubyrði, höft, einangrunarhyggja og andúð í garð samkeppni á ýmsum sviðum opinbers rekstrar minni óþægilega mikið á viðbrögð við kreppunni á fjórða áratug síðustu aldar en tekið hafi sex áratugi að vinda ofan af haftabúskap sem þá var komið á. Fara verði aðra leið nú.
„Við erum í raun að leiða yfir okkur nýjan haftabúskap, stóraukin ríkisafskipti og hert regluverk.“ Fullt tilefni sé til að staldra við og velta fyrir sér hvort Íslendingar séu á réttri leið en aðrar þjóðir hafi ekki farið sambærilegar leiðir þrátt fyrir mikil áföll.
Að lokum sagði Þorsteinn mikilvægt verkefni framundan.
„Ein helsta áskorun íslensks efnahagslífs á komandi árum er hvernig auka má framleiðni og þannig renna styrkari stoðum undir lífskjör okkar. Virk samkeppni skiptir þar miklu máli.“
Sjá nánar:
Glærukynning framkvæmdastjóra SA (PDF)
Inngrip stjórnvalda á mörkuðum. Neytendavernd eða miðstýring? var yfirskrift opins morgunverðarfundar Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík, þriðjudaginn 26. apríl 2016.
Nánar verður fjallað um fundinn á vef SA. Auk framkvæmdastjóra SA flutti Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri VÍ erindi um markaðsrannsóknir og Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl., lögmaður á LEX lögmannsstofu fjallaði um heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar á mörkuðum.
Auk frummælenda tóku Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og Ingunn Agnes Kro hdl., lögfræðingur Skeljungs þátt í umræðum.