Hefjum rekstur - Opið námskeið hefst 3. nóvember

Hefjum rekstur er opið námskeið á vegum Samtaka atvinnulífsins þar sem nokkrir af helstu sérfræðingum landsins fara yfir tíu lykilþætti er varða rekstur og stofnun fyrirtækja. Skráning hefur gengið vonum framar en þegar hafa ríflega 600 manns skráð sig til leiks og er meirihluti þátttakenda á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA segir það mikið ánægjuefni að námskeiðinu sé sýndur jafnmikill áhugi og raun ber vitni:

„Það er okkur mikil hvatning að nokkuð hundruð Íslendinga hafi hug á að fara í rekstur en markmiðið með námskeiðinu er að hvetja einstaklinga, ekki síst af atvinnuleysisskrá til að taka skrefið og fara í rekstur og skapa þannig störf og verðmæti fyrir allt samfélagið sem er forsenda bættra lífskjara.“

Á námskeiðinu verður fjallað um gerð viðskipta- og rekstraráætlunar, val á hentugu félagaformi og stofnun fyrirtækis, tilkynningu á starfsemi til skattyfirvalda og umsókn á starfsleyfum eftir þörfum, fjármögnun, val á viðskiptabanka og þjónustuaðila á sviði tæknimála, bókhald auk vals á þjónustuaðila á sviði bókhaldsmála, gerð markaðsáætlunar og ráðningu starfsmanna.

Fyrsti hluti námskeiðsins fer fram miðvikudaginn 3. nóvember kl. 13:00. Námskeiðið fer fram með rafrænum hætti og unnt verður að spyrja spurninga að loknum erindum.

Skráning