Hærri ráðningarstyrkir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki

Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­sæt­is­ráðherra og Ásmund­ur Ein­ar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra kynntu breytingu á reglugerð, síðastliðinn föstudag, um þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsaðgerðum sem er liður í atvinnuátaki ríkisstjórnarinnar Hefjum störf. Samkvæmt breytingunni er atvinnurekendum með færri en 70 starfsmenn heimilt að ráða til sín starfsfólk og fá ráðningarstyrk er nemur fjárhæð allt að hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð í allt að 6 mánuði greiddar með nýjum starfskrafti eða 527.211 kr. á mánuði.

Starfsmenn sem hafa verið á atvinnuleysisskrá í a.m.k. 12 mánuði falla undir úrræðið. Fyrirtæki þarf að hafa a.m.k. einn starfsmann á launaskrá, vera í skilum með skatta og gjöld og ráðningin þarf að fela í sér aukningu á starfsmannafjölda. Mögulegt er að framlengja ráðningarstyrkinn í allt að 6 mánuði ef starfsmaðurinn er með skerta starfsgetu og nauðsynlegt er að veita honum lengri tíma til þjálfunar að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar.

Atvinnurekendur geta eftir sem áður ráðið til sín starfsmenn, óháð starfsmannafjölda, sem hafa verið á atvinnuleysiskrá í a.m.k. 1 mánuð með hefðbundnum ráðningarstyrk sem nemur fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð í allt að 6 mánuði eða allt að 342.784 kr. í styrk á mánuði.  

Markmið ráðningarstyrks er að auðvelda atvinnurekendum að fjölga störfum og ýta með því undir hagvöxt og draga úr atvinnuleysi sem er nú í sögulegu hámarki. Stjórnvöld stefna að því að skapa allt að 7 þúsund störf með átakinu. Samtök atvinnulífsins fagna breytingunni og hvetja fyrirtæki til að kynna sér ráðningarstyrki en með samhentu átaki er hægt að ná kröftugri viðspyrnu öllum til hagsbóta.

Fundur fyrir félagsmenn miðvikudaginn 17. mars

Félagsmönnum SA er bent á heimasíðu Vinnumálastofnunar fyrir frekari upplýsingar um ráðningarstyrk en atvinnuráðgjafar Vinnumálastofnunar um land allt eru til þjónustu reiðubúnir. Samtök atvinnulífsins munu halda fræðslufund fyrir félagsmenn um ráðningarstyrk, í samvinnu við Vinnumálastofnun og félagsmálaráðuneytið, næstkomandi miðvikudag kl. 13:00. Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra mun kynna átakið Hefjum störf og sérfræðingar Samtaka atvinnulífsins og Vinnumálastofnunar fara nánar yfir úrræðin og sitja fyrir svörum. Skráning fer fram hér á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.

Upplýsingar um ráðningarstyrk á heimasíðu Vinnumálastofnunar

Reglugerð um greiðslu styrkja úr atvinnuleysistryggingasjóði o.fl. (11. gr.)

Skattastefna sem skapar störf