Frumvarp um RÚV samræmist ekki EES-reglum
Frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. var lagt fram á Alþingi síðastliðinn vetur og gerðu Samtök atvinnulífsins ýmsar athugasemdir við það í umsögn sinni. Nú er komið fram nýtt frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. Hið nýja frumvarp felur í sér vissa framför frá því sem áður var, sem einkum felst í því að ráðgert er að hlutafélag í 100% eigu ríkisins verði stofnað um reksturinn í stað sameignarfélags áður. Þá er það til bóta að gert er ráð fyrir þeim möguleika að fjárhagslegur aðskilnaður verði milli útvarps í almannaþágu og annarrar hugsanlegrar starfsemi Ríkisútvarpsins. Að mati SA er löngu tímabært að endurskoða lagaákvæði um Ríkisútvarpið og endurmeta hlutverk þess í breyttu fjölmiðlaumhverfi. Leggja ber áherslu á að útvarpsrekstur er atvinnustarfsemi sem hverjum og einum er frjálst að stunda sem hefur til þess tilskilin leyfi. Lög sem um slíka starfsemi gilda þurfa því að vera almenns eðlis og laus við mismunun sem ekki á sér málefnalegar forsendur.
Skilgreining á ríkisstyrktum útvarpsrekstri of víðtæk og óljós
Mikilvægustu athugasemdirnar í fyrri umsögn SA lutu að því að skilgreining á útvarpsþjónustu í almannaþágu væri alltof víðtæk og óljós. Engin markverð breyting hefur orðið á þessu mikilvæga ákvæði frumvarpsins. SA er ljóst að miðað við fordæmi í EES rétti hafa íslensk stjórnvöld talsvert svigrúm í þessu efni. Ekki er þó heimilt að víkja frá þeim skilyrðum sem nefnd eru í athugasemdum ESA til íslenskra stjórnvalda. Ólíkt því sem EES reglur um ríkisaðstoð krefjast og getið er um í athugasemdum ESA, er ekki með skýrum hætti mælt fyrir um skyldu RÚV til að veita tiltekna og magngreinda þjónustu í almannaþágu gegn þeim ríkisstyrk sem félaginu er ætlaður, heldur er ákvæðið skrifað nánast eins og heimildarákvæði í kringum alla núverandi starfsemi RÚV. Þegar þannig er búið um hnútana er ákvæði um fjárhagslegan aðskilnað dauður bókstafur. Þá er ákvæði um tekjustofna RÚV óbreytt frá fyrra frumvarpi. Láta SA því á ný í ljós efasemdir um að nefskattur sem veitir eigi lægri ríkisstyrk en núverandi afnotagjöld gera geti falið í sér ásættanlega lausn á fjármögnun Ríkisútvarpsins og að verjandi sé að ráðstafa opinberu fé til RÚV í þeim mæli sem gert hefur verið undanfarin ár.
Samræmist ekki EES-samningi
Samtök atvinnulífsins telja því nú sem fyrr að frumvarpið samræmist ekki ákvæðum EES samningsins um ríkisstyrki, sé í andstöðu við markmið samkeppnislaga og tryggi ekki ásættanlegt jafnræði milli opinberra aðila og einkaaðila í útvarpsrekstri. Samtökin geta því í umsögn sinni ekki mælt með því að frumvarpið verði samþykkt í óbreyttri mynd.