Færniþörf á vinnumarkaði verði metin

Sérfræðingahópur um færni- og menntunarþörf á vinnumarkaði hefur afhent Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og jafnréttismálaráðherra, skýrslu um færnispár og mikilvægi þeirra. Ráðherra var jafnframt afhent skýrsla sem Hagfræðistofnun vann fyrir hópinn þar sem eru upplýsingar um menntun, störf, atvinnugreinar og samspil þessara þátta á vinnumarkaði.

Hópurinn leggur til að formfastur rammi verði myndaður um gerð færnispár hér á landi. Í honum sátu fulltrúar frá Vinnumálastofnun, Alþýðusambandi Íslands, Hagstofu Íslands og Samtökum atvinnulífsins sem áttu frumkvæði að gerð skýrslunnar. 

Mikilvægi færnispár er ótvírætt
Niðurstöður spáferla nýtast til stefnumótunar í menntakerfinu, aðgerða á mörgum sviðum og sem upplýsingar til að styðja við ákvarðanatöku einstaklinga við val á námi og starfsvettvangi. Bæta þarf getu fyrirtækja og símenntunarmiðstöðva til að mæta þörf vinnumarkaðar fyrir breytta færni. Ólíkt flestum vestrænum ríkjum hefur ekki verið lagt kerfisbundið mat á færni-, menntunar eða mannaflaþörf á vinnumarkaði til lengri tíma hér á landi. Íslendingar virðast þó í auknum mæli vera að átta sig á mikilvægi þess að hér sé ekki aðeins menntað starfsfólk, heldur að menntunin henti atvinnulífinu og þeim störfum sem eru á vinnumarkaði. Það er mat sérfræðingahópsins að Ísland sé eftirbátur Evrópuríkja þegar kemur að því að leggja mat á færni- og menntunarþörf á vinnumarkaði til skemmri og lengri tíma.


Sérfræðingahópurinn leggur til að tekið verði upp formlegt spáferli um færniþróun á vinnumarkaði og að horft verði til reynslu nágrannaþjóða. Í vinnu sinni fékk hópurinn aðstoð frá sérfræðingum hjá starfsmenntastofnun Evrópu, Cedefop. Þar að auki voru sérfræðingar frá nokkrum löndum hópnum innan handar ásamt einum fremsta fræðimanni í Evrópu í færnispám, Rob Wilson prófessor við Warwick háskóla. Í skýrslu hópsins er farið ítarlega yfir færnispár og spáferlið á Írlandi, Finnlandi og í Svíþjóð er skoðað sérstaklega þar sem þessi lönd standa mjög framarlega í færnispám.  Settar eru fram tillögur um hvernig taka megi upp spáferli í takt við það sem best gerist í Evrópu.  Hópurinn leggur til fimm tillögur sem talið er að geti stuðlað að spáferli þar sem horft verði bæði til skemmri- og lengri tíma og byggt á víðtæku samtali og samráði lykilaðila um niðurstöður ferlisins.

Sjá nánar:

Færniþörf á vinnumarkaði – tillögur sérfræðingahóps (PDF)

Greining Hagfræðistofnunar á menntun, starfstéttum og atvinnugreinum á vinnumarkaði (PDF)