Bein erlend fjárfesting mikilvæg fyrir Ísland

Það þarf að efla útflutningsgreinar á Íslandi til að bæta hag landsmanna en til að svo megi verða þarf að fjárfesta í þeim. Skaðleg gjaldeyrishöft draga hins vegar úr áhuga erlendra fjárfesta en bein erlend fjárfesting er mikilvæg litlu hagkerfi eins og því íslenska. Þetta er meðal þess sem kom fram á fjölsóttum fundi Samtaka atvinnulífsins um beina erlenda fjárfestingu sem haldinn var á Icelandair hótel Reykjavík Natura. Karim Dahou, framkvæmdastjóri skrifstofu fjárfestinga og atvinnulífs hjá Efnahags- og framfarastofnuninni - OECD og Frank Barry, prófessor í alþjóðaviðskiptum við Trinity háskólann í Dublin greindu stöðu Íslands og settu í alþjóðlegt samhengi auk íslenskra stjórnenda. Til að auka fjárfestingar þarf einnig að vera gagnsæi í starfsumhverfinu, stöðugleiki í efnahagslífinu og samkeppnishæft skattaumhverfi.

Karim Dahou
Karim Dahou,

framkvæmdastjóri skrifstofu fjárfestinga og atvinnulífs hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) í París, fjallaði m.a. um þær hindranir sem ríki leggja á beina erlenda fjárfestingu. Fram kom að hindranir hér á landi eru ríflega tvöfalt meiri en að meðaltali í OECD ríkjunum. Hann sagði gjaldeyrishöft hluta af skýringunni en stjórnvöld stefndu að því að leggja enn frekari takmarkanir á fjármagnsflutninga en nú eru í gildi. Almennt væru fjárfestingar erlendra aðila mestar í þeim ríkjum þar sem hagkerfið væri opið og ekki hindranir í vegi alþjóðlegrar starfsemi. Hann rakti þær hindranir sem í gildi eru hér á landi. Hann fór yfir mikilvægi þess að móta almenna stefnu til að hvetja til fjárfestinga og tryggja samkeppnishæf rekstrarskilyrði fyrirtækja.

Glærur Karim Dahou

Frank Barry
Frank Barry

, prófessor í alþjóðaviðskiptum við Trinity háskólann í Dublin, fjallaði um reynslu Íra af beinni erlendri fjárfestingu. Hann sagði 80% útflutningstekna Íra koma frá starfsemi erlendra fyrirtækja í landinu. Hann sagði útflutninginn leiða efnahagsbatann í landinu en miklar skuldir hins opinbera dragi úr vexti. Írar hafi í um 60 ár búið við lága tekjuskatta fyrirtækja og það hafi orðið til að laða fjárfestingu til landsins auk markvissrar stefnumörkunar sem hafi hvatt til hennar og stutt við hana. Barry segir lítil ríki á borð við Írland  eiga eðli málsins samkvæmt erfitt með að byggja upp alþjóðleg stórfyrirtæki en hagkvæmt skattaumhverfi sé leið þeirra til að auka samkeppnishæfni sína og bein erlend fjárfesting sé þeim mikilvægari en stórum hagkerfum á borð við Bandaríkin, Þýskaland eða Bretland sem dæmi.

Í erindi sínu benti hann á að írsk stjórnvöld hafi lagt mikið á sig til að laða fyrirtæki til landsins með uppbyggingu innviða og stuðningi við menntakerfið.  Aðrir þættir hafi einnig skipt miklu máli og þar nefndi hann inngöngu Írlands í ESB 1973, innri markaðinn 1992 og tilteknar skattabreytingar í Bandaríkjunum árið 1997. Hann sagði einnig að þrátt fyrir að Írland væri lítið fyndist bæði fólki og fyrirtækjum gott að vera með starfsemi í enskumælandi ríki. Til að byrja með hafi erlend fjárfesting verið í iðnaði og framleiðslu en í seinni tíð hafi hún beinst meira að hátæknifyrirtækjum, fjármálastarfsemi og lyfjageiranum, fyrirtækjum sem greiði góð laun og séu eftirsóttir vinnustaðir.

Í pallborðsumræðum sagði Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, að skýringa á lítilli erlendri fjárfestingu hér mætti m.a. leita í óstöðugleika, óskýrri stefnu, smæð hagkerfisins og fjarlægð frá mörkuðum. Einnig kynni viðhorf ráðamanna að fæla fjárfesta frá.  Friðrik Már Baldursson, prófessor við HR, sagði að svo virtist sem Íslendingar virtust frekar vilja taka alla áhættu sjálfir eins og með fjárfestingum í orkugeiranum  í stað þess að deila henni með erlendum fjárfestum. 

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis á Íslandi, sagði fyrirtækið nú írskt en með mikla starfsemi á Íslandi. Þar væru um 800 starfsmenn og kostirnir felist meðal annars í að lagaumhverfið sé stöðugt en þó væri ólíklegt að til frekari fjárfestinga komi hér á landi. Kristrún Heimisdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði Íslendinga oft tortryggna gagnvart útlendingum og sökuðu þá um ásælni. Þess vegna væri gott að heyra hvað Írar hefðu náð langt og taka þyrfti mið af því sem þar hefði reynst vel m.a. skýrar reglur.

Fundarstjóri var Birna Einarsdóttir,  bankastjóri Íslandsbanka.

Tengt efni:

VB - sjónvarp: Lágur fyrirtækjaskattur breytti miklu


VB - sjónvarp: Ásdís: Erlend fjárfesting ekki innrás


Samtök atvinnulífsins þakka þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína á fundinn.