19% aukning nýrra örorkutilfella

Alls fékk 1.471 einstaklingur úrskurðað 75% örorkumat í fyrsta sinn árið 2015 en það er 19% fleiri en árið áður. VIRK starfsendurhæfingarsjóður er farinn að taka við umtalsvert fleira fólki í sína þjónustu en mikill fjöldi ungs fólks í þeirra hópi er áhyggjuefni að mati forstjóra VIRK. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins frá 14. apríl. 

Í umfjöllun blaðsins sem má nálgast í heild hér að neðan, kemur fram að frá aldamótum var mesta aukningin í nýgengi öryrkja árið 2009 þegar 1.528 manns fengu í fyrsta sinn úrskurðað 75% örorkumat. Þetta byggir á upplýsingum sem Tryggingastofnun tók saman fyrir Viðskiptablaðið.

undefined

Mynd Viðskiptablaðið.

Rætt er við Vigdísi Jónsdóttur, forstjóra VIRK, en á síðasta ári voru 1.794 nýir einstaklingar skráðir í þjónustu VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og 1.346 útskrifaðir. Heildarfjöldi þeirra sem hafa leitað til VIRK frá stofnun hans árið 2009 er 9.288 á meðan fjöldi þeirra sem hafa lokið þjónustu er 5.110.  Einstaklingar  sem glíma annaðhvort við stoðkerfisvandamál eða geðræn vandamál hafa fjórfaldast á sama tímabili á meðan einstaklingar sem glíma við önnur vandamál hafaþrefaldast.

Vigdís segir fólk enn vera að glíma við afleiðingar kreppunnar. „Ráðgjafar okkar segja við mig að það sé talsvert af fólki sem kemur frá félagsþjónustunni sem hafði farið þangað eftir kreppu. Það er fólk sem er búið með atvinnuleysisbótaréttinn, fer á félagsþjónustuna og síðan til okkar. Það hefur fjölgað mikið fólki sem kemur frá félagsþjónustunni á síðustu tveimur til þremur árum. Þetta er líka hópur sem er búinn að vera lengi frá vinnu og er með fjölþætt vandamál.“

Vigdís bendir á að það sé ákveðið áhyggjuefni hversu mikil fjölgun er á fólki undir 34 ára aldri sem innritast í þjónustu VIRK. Árið 2011 var hlutfall þessa aldurshóps 24% af öllum sem innrituðust það árið en á síðasta ári var hlutfallið um 45%.

Úr örorku í starfsgetu
Nýlega lagði nefnd um endurskoðun almannatryggingakerfisins fram skýrslu til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Í henni eru lagðar fram umtalsverðar breytingar á almannatryggingakerfinu en á meðal þeirra er lögð til upptaka svokallaðs starfsgetumats í stað örorkumats.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sat í nefndinni. Hann telur ástæðulaust að gefa sér fyrirfram að íslenskur vinnumarkaður sé ekki í stakk búinn til að taka á móti fólki í hlutastarfi sem hefur skerta starfsgetu en Öryrkjabandalag Íslands hefur lýst því yfir.

„Það verður að láta á það reyna,“ segir Hannes í samtali við Viðskiptablaðið. „Við höfum svarað þessari röksemd þannig að íslenski vinnumarkaðurinn er með mjög hátt hlutfall hlutastarfa í samanburði við önnur OECD ríki. Við sjáum fram á mikinn innflutning á erlendum starfsmönnum vegna þess að vinnumarkaðurinn stækkar ekki nándar nærri eins mikið og þörf er fyrir ef við ætlum að halda hagvexti á komandi árum. Það er enginn spurning að vinnumarkaðurinn aðlagast því að bjóða fólki starf sem hentar þeim sem eru með skerta starfsorku til jafns við aðra. Ef það eru einhverjar fyrirstöður þá vinnum við í þeim fyrirstöðum.“

Hannes segir að eins og staðan sé í dag sé hann ekki vongóður um að sátt náist um að taka upp starfsgetumat með hlutabótum í almannatryggingum.

„Ég er svolítið svartsýnn vegna þess að það virðist sem svo að stjórnmálaflokkarnir séu ekki mjög til í að gera breytingar sem eru í andstöðu við vilja Öryrkjabandalagsins,“ segir hann. „Jafnvel þó að þetta sé augljóslega til þess fallið að bæta stöðu fólks sem stendur höllum fæti á vinnumarkaðnum. Markmiðið er að halda fólki á vinnumarkaðnum með aukinni þjónustu og við teljum að þetta skref, að taka upp hlutabætur, sé mikil réttarbót fyrir þennan hóp fólks.“

Sjá nánar:

Umfjöllun Viðskiptablaðsins 14. apríl 2016 (PDF)

Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild á vef Viðskiptablaðsins 

Tengt efni:

Ársrit VIRK um starfsendurhæfingu 2016 (PDF)

Nýtt lífeyriskerfi – grein á vef SA