Umsögn SA um fjármálastefnu til 2022
Í nýrri fjármálastefnu stjórnvalda, þeirri þriðju á jafnmörgum árum, er gert ráð fyrir samfelldum hagvexti fram til ársins 2022. Með stefnunni er því enn treyst á óvenju langt hagvaxtarskeið. Til samanburðar þá hafa hagvaxtarskeið á Íslandi almennt enst í sex til sjö ár. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins um fjármálastefnu hins opinbera.
Agnarsmár afgangur
Fjármálastefnan er nú sett fram í kjölfar mikils efnahagsleg uppgangs, tekjustofnar hafa vaxið hratt og tekjur hins opinbera aldrei verið meiri. Fyrirhugaður rekstrarafgangur á næstu árum er aftur á móti ekki mikill, að jafnaði 1% af landsframleiðslu eða um 26 milljarða króna, sem er heldur minni afgangur er fyrri fjármálastefnan áætlaði. Til samanburðar var afgangur á rekstri hins opinbera fimmfalt meiri á árunum 2004-2007. Uppsveiflan mun taka enda og Samtök atvinnulífsins telja einfaldlega ábyrgðaleysi að búa ekki betur í haginn því það mun margborga sig þegar harðnar á dalnum.
Hagvaxtarforsendur breytast skjótt
Óvissa ríkir í innlendum efnahagsmálum um þessar mundir og má greina vísbendingar þess efnis að það hægi hratt á vexti hagkerfisins. Spáskekkjur eru líklegri til að vera enn meiri á slíkum tímum. Verði hagvöxtur minni en áætlanir gera ráð fyrir gæti afkoma hins opinbera hæglega breyst í halla. Lítið má því út af bregða. Samtök atvinnulífsins taka undir þá skoðun fjármálaráðs að sviðmyndagreining opinbers rekstrar, m.v mismunandi hagvaxtarforsendur fyrir komandi ár, væri æskileg og myndi auka trúverðugleika fjármálastefnunnar. Þá skortir mat á aðhaldsstigi fjármálastefnunnar sem er gagnrýnisvert.
Áfram skal lögð áhersla á niðurgreiðslu skulda
Jákvætt er að stjórnvöld ætli sér áfram að greiða niður skuldir og stefnt er að því að skuldir verði komnar undir skuldaviðmið á árinu 2020. Hvergi skal hvika frá þeim áformum enda var takmörkuð skuldsetning ein lífsbjörg okkar Íslendinga í síðasta efnahagsáfalli. Þrátt fyrir þessi áform verða skuldir hins opinbera þó talsvert hærri í lok árs 2022 en við lok síðustu uppsveiflu.
Fjármálareglurnar ekki nægilega vel útfærðar
Vonir hafa verið bundnar við að ný lög um opinber fjármál muni stuðla að auknum aga í fjármálastefnu hins opinbera. Með lögunum er lögð áhersla á langtímahugsun og bætt vinnubrögð. Þrátt fyrir að það sé skynsamleg nálgun er útfærslan á lögunum ekki nægilega góð. Afkomureglan nær hvorki að hemja útgjaldavöxt á uppgangstímum né kerfislega aukningu fjárheimilda frá framlagningu fjárlagafrumvarps til endanlegs ríkisreiknings. Nægir að horfa til ársins 2017; útgjöld hafa vaxið umfram upphaflegar áætlanir og fjármálastefnan er þensluhvetjandi.
Horfum til reynslu annarra ríkja
Flest önnur þróuð ríki styðjast við fjármálareglur og er þar afkomuregla algengust. Það sem einkennir þó afkomureglu flestra annarra ríkja er leiðrétting fyrir hagsveiflunni. Önnur ríki kjósa einnig að takmarka útgjöld með útgjaldareglu. Báðar reglurnar eiga það sammerkt að tryggja að aðhaldi sé gætt á uppgangstímum en að slakinn sé þeim mun meiri í niðursveiflu. Eðli málsins samkvæmt er auðveldara að fylgja einfaldri afkomureglu, eins og íslensk stjórnvöld gera, þegar tekjustofnar vaxa hratt. Samtök atvinnulífsins hvetja stjórnvöld til að útfæra betur fjármálareglur sínar og tryggja þannig aðhald á uppgangstímum.
Mikilvægt að nýta betur skattfé landsmanna
Að mati Samtaka atvinnulífsins er of lítil áhersla á aðhald og mikilvægi þess að draga úr opinberum umsvifum þrátt fyrir að þau séu ein þau mestu innan OECD. Það væri óskandi að stjórnvöld myndu leggja aukna áherslu á skilvirkni í opinberum rekstri og forgangsröðun í næstu fjármálaáætlun. Mjög hefur skort á slíkt í þeim fjármálastefnum sem lagðar hafa verið fram. Illa nýtt skattfé er sóun á fjármagni og mikilvægt að stjórnmálamenn hafi hugfast að aukin útgjöld eru ekki endilega ávísun á betri þjónustu.
Á að festa Ísland í sessi sem háskattaríki?
Það er jafn óábyrg stefna að stunda þensluhvetjandi fjármálastefnu á uppgangstímum og að festa Ísland í sessi sem háskattaríki. Slík stefna kemur niður á samkeppnishæfni landsins. Skattar voru hækkaðir hér eftir 2008 og standa þær skattahækkanir flestar óhreyfðar. Í fjárlagafrumvarpi 2018 eru frekari skattahækkanir boðaðar en engar skattalækkanir. Skapa þarf rými svo hægt sé að draga úr álögum á almenning en slíkt er ómögulegt án þess að stjórnvöld haldi aftur að útgjöldum.
Framtíðarsýn óskast
Það hægir hratt á vexti hagkerfisins og það er nokkuð ljóst að stjórnvöld geta ekki lengur treyst á mikinn tekjuvöxt til að fjármagna aukin útgjöld. Samtök atvinnulífsins hvetja stjórnvöld til að móta ítarlega framtíðarstefnu í fjármálaáætluninni sem kynnt verður í vor. Það hefur skort í fyrri áætlunum. Horfa þarf til ólíkra leiða til að fjármagna þá innviðauppbyggingu sem fyrir höndum er. Horfa þarf með opnum hug til þeirra tækifæri sem liggja í ólíkum rekstrarformum t.a.m. á sviði heilbrigðis- og menntamála. Stjórnvöld þurfa að sama skapi að móta skattastefnu sem eykur samkeppnishæfni þjóðarbúsins.
Fimm atriði er mikilvægt að hafa hugfast þegar stefna opinberra fjármála er mörkuð. Á vormánuðum verður lögð fram ítarleg fjármálaáætlun byggða á þeirri fjármálastefnu sem nú er lögð fram. Hér að neðan eru þau fimm atriði sem Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að stjórnvöld hafi í huga þegar sú áætlun er mörkuð.
Uppsveiflur taka enda. Mikilvægt er að auka afgang af rekstri hins opinbera meðan tekjustofnar eru enn sterkir. Stjórnvöld munu búa að þeirri ráðdeild næst þegar harðnar á dalnum.
Aukin útgjöld eru ekki ávísun á betri þjónustu. Það á ekki að vera markmið í sjálfu sér að auka opinber útgjöld heldur fyrst og fremst að skila betri þjónustu þar sem hennar er þörf. Tækifæri eru falin í betri nýtingu fjármuna og forgangsröðunar innan núverandi útgjaldaramma.
Ekki festa Ísland í sessi sem háskattaríki. Á Íslandi eru innheimtir einhverjir hæstu skattar meðal þróaðra ríkja. Ekki hefur að neinu marki verið hróflað við miklum skattahækkunum áranna eftir hrun. Mikilvægt er að skapa svigrúm til að draga tilbaka þær skattahækkanir.
Mikilvægt að horfa til ólíkra leiða til að fjármagna innviði. Takmarkað svigrúm er í rekstri hins opinbera til að standa undir allri þeirri fjárfestingaþörf sem nauðsynleg er í innviðum landsins. Horfa þarf til ólíkra leiða í þeim efnum.
Áfram skal leggja áherslu á að greiða niður skuldir. Þrátt fyrir batnandi skuldastöðu eru skuldir hins opinbera enn háar og hærri en þær voru 2008. Mikilvægt er að hvika hvergi frá áframhaldandi niðurgreiðslu skulda.
Sjá nánar: