Sjávarútvegsdagurinn: Stolt siglir fleyið mitt... krónuna á

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, flutti í morgun erindi á Sjávarútvegsdegi SA, SFS og Deloitte. Bar það heitið „ Stolt siglir fleyið mitt … krónuna á“, en í erindinu fjallaði Ásdís m.a. um þann árangur sem náðst hefur í íslenskum efnahag síðustu ár. Ásdís segir miklar breytingar hafa orðið á innlendu hagkerfi á síðustu árum ekki síst vegna tilkomu nýrrar útflutningsatvinnugreinar sem styrkt hefur gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins.

Seðlabankinn hefur spornað gegn frekari styrkingu krónunnar síðustu árin með inngripum sínum á gjaldeyrismarkaði og með því styrkt gjaldeyrisforðann svo um munar. Nú er svo komið að forðinn uppfyllir öll alþjóðleg viðmið og vel það. Ásdís benti þó á að svo ríflegur varaforði sé þjóðarbúinu ekki að kostnaðarlausu en árlegur kostnaður af varaforðanum slagar hátt í 40 milljarða króna. Vísbendingar eru um að inngripastefna Seðlabankans muni fljótlega taka breytingum og dregið verði úr gjaldeyrisinngripum en krónan hefur styrkst samfleytt frá árslokum 2013 og undirliggjandi hagstærðir gefa ekki tilefni til að ætla annað en að áframhald verði á þeirri þróun.

Eftir 25 ára tímabil hagræðingar er íslenskur sjávarútvegur betur í stakk búinn en áður til að mæta íslensku sveiflunni og þrátt fyrir gengisstyrkingu krónunnar er afkoma í sjávarútvegi enn góð. Koma þar einnig til hagstæð ytri skilyrði og er því ekki sjálfgefið að svo verði til frambúðar. Áframhaldandi gengisstyrking krónunnar mun að öðru óbreyttu skila lakari afkomu í sjávarútvegi.

undefined

Á komandi misserum verður talsverð áskorun að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Ef það tekst ekki þá er vitað hvað tekur við, slíka sveiflu þekkja Íslendingar og hafa upplifað margoft áður.

Sjá nánar:

Kynning Ásdísar: Stolt siglir fleyið mitt…krónuna á (PDF)