Er eftirsóknarvert að vera eyland? Þjóðhagslegt mikilvægi erlendrar fjárfestingar
Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins kynnti nýja greiningu um erlenda fjárfestingu á opnum fundi Samtaka iðnaðarins, Íslandsstofu og Samtaka atvinnulífsins, í morgun 15. febrúar 2017. Helstu niðurstöður greiningarinnar má nálgast hér að neðan ásamt greiningunni í heild sem Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður sviðsins kynnti.
Opið hagkerfi bætir lífskjör
Nokkuð góð samstaða hefur náðst um að lífskjör séu best þegar verslun yfir landamæri er sem frjálsust. Fyrir litla eyþjóð eins og Íslendinga eru þessi sannindi óvenju mikilvæg og þó stödd í miðju Atlantshafi erum við ekki einangraðri en svo að við byggjum okkar velsæld að mestu á viðskiptum við aðrar þjóðir. Sannast hið fornkveðna að mest er verðmætasköpunin þegar ríki sérhæfa sig í því sem þau gera best og versla það sem þau vanhagar um erlendis.
Tortryggni ríkir gagnvart erlendri fjárfestingu
Einangrunarhyggja dæmist af sögunni og þó víða um lönd spretti nú upp raddir aflokunar og gamalla hugmynda, sem fyrir löngu hafa verið lagðar til hliðar af velmegandi þjóðum, sætir furðu að Íslendingar séu almennt neikvæðari gagnvart alþjóðavæðingu en nágrannaþjóðir. Ekki síst í ljósi þess að alþjóðavæðingin hefur á undraskömmum tíma gert Íslendinga að einni auðugustu þjóð veraldarsögunnar.
Við eigum mikið undir
Fámenn ríki eiga sérstaklega mikið undir í samstarfi við erlenda aðila við að nýta þau tækifæri sem fyrir eru í landinu og skapa önnur sem eru heimamönnum hulin. Vel menntuð, ung og fámenn þjóð í stóru landi ríku af náttúruauðlindum gerir Ísland að skólabókardæmi um land þar sem mikil not eru af erlendu fjármagni.
Aukin áhættudreifing
Ákveðna tortryggni á Íslandi gagnvart frjálsum fjármagnsflutningum má skilja í ljósi þeirra miklu sveiflna sem urðu árin fyrir og eftir 2008 þegar skammtímafjármagn erlendra aðila skapaði verulegt ójafnvægi á gjaldeyrismarkaði. Erlend fjárfesting er aftur á móti fjölbreytt og lítur ólíkum lögmálum eftir því hvers kyns hún er. Bein erlend fjárfesting er það form erlends fjármagns sem annars vegar felur í sér mikla hlutdeild í áhættu og hins vegar er varanlegra og því ólíklegra til að yfirgefa landið þegar á bjátar.
Erlend fjárfesting styrkir efnahagslegar stoðir
Aukin erlend fjárfesting er til þess fallin að styrkja efnahagslegar stoðir landsins. Ísland, þó framarlega á mörgum sviðum, líður fyrir lága framleiðni, fábrotinn útflutning og of litla fjárfestingu. Aukin vigt erlendra aðila í íslensku hagkerfi myndi auka fjárfestingu, skapa betri tengsl við erlenda markaði og þannig auka framleiðslu og bæta markaðssetningu hennar á erlendum mörkuðum.
Hver er staðan í dag?
Erlend fjárfesting er töluverð á Íslandi og hefur verið að aukast síðustu ár. Fjárfestingarnar eru margar, ná til ólíkra atvinnugreina og skapa fjölbreytt störf. Ætla má að hið minnsta 6.500 manns starfi í dag fyrir fyrirtæki á Íslandi sem eru í erlendri eigu. Þrátt fyrir að aukning hafi orðið í erlendri fjárfestingu síðustu ár þá er umfangið minna en ætla mætti miðað við mannfjölda, en almennt er erlend fjárfesting umfangsmeiri í fámennari ríkjum.
Betur má ef duga skal
Á næstu árum er mikilvægt að stjórnvöld leggi sitt af mörkum við að skapa hér samkeppnishæft og eftirsóknarvert rekstrarumhverfi. Við erum ekki sjálfum okkur nóg frekar en önnur stærri ríki og höfum allt að græða á því að fá hingað erlenda aðila. Erlendum aðilum fylgir nefnilega ekki bara fjármagn heldur oft á tíðum önnur nálgun og fjölbreyttari sýn.
Hvar getum við gert betur?
Ísland hefur margt til brunns að bera en ástæður þess að ekki hefur tekist að skapa samkeppnishæfara umhverfi fyrir alþjóðlega fjárfestingu má rekja bæði til pólitískra og efnahagslegra þátta.
Fjórar fljótvirkar leiðir eru til að auka samkeppnishæfni Íslands:
Losun hafta
- Aðstæður til fullrar losunar hafta gætu vart verið betri. Mikilvægt er að stjórnvöld stigi skrefin til fulls og losi um öll höft.
- Höft, sama í hvaða formi, draga úr fjárfestingu og þar með áhuga erlendra aðila til að ráðstafa fjármunum sínum hér innanlands.
Minnka flækjustig
- Ísland er háskattaland. Skattkerfið hér á landi er óskilvirkt og flækjustigið mikið. Mörgu er ábótavant í rekstrarumhverfi fyrirtækja sem auðvelt er að bæta úr.
- Stjórnvöld ættu að halda áfram á þeirri vegferð að einfalda skattkerfið, auka skilvirkni og skapa svigrúm til að lækka álögur á fólk og fyrirtæki.
Dragar úr hömlum
- Ísland skorar ekki hátt þegar kemur að aðgengi erlendra aðila að fjárfestingakostum hér á landi. Skýringuna má einkum rekja til þeirra miklu hamla sem komið
hefur verið í kringum auðlindagreinar landsins. - Lagt er til að stjórnvöld finni leiðir til að draga úr sértækum hömlum en tryggi um leið að auðlindir þjóðarinnar séu í höndum Íslendinga.
Draga úr pólitískri óvissu
- Of margar skattkerfisbreytingar hafa átt sér stað á undanförnum árum. Fyrirsjáanlegt skattkerfi er lykilatriði ef laða á erlenda fjárfestingu til landsins.
- Skýr stefna frá stjórnvöldum og gagnsæ er mikilvæg.
Greining efnahagssviðs SA: