Árið 2016: Hvert skal haldið?
Horfur á árinu 2016 eru almennt góðar. Íslenska hagkerfið er í örum vexti, tekjujöfnuður er hvergi meiri og kaupmáttur launa nálgast nú það sem mest var fyrir efnahagshrunið. Mikil sókn er í innlendri ferðaþjónustu og sjá flest allar atvinnugreinar fram á aukna fjárfestingu og ráðningar á árinu sem nú er í hönd. Við það bætist að samningar við kröfuhafa fallinna fjármálafyrirtækja munu skila ríkissjóði töluverðum tekjum sem gefur færi á að bæta skuldastöðu ríkisins töluvert.
Þrátt fyrir góða stöðu má finna blikur á lofti. Þjóðin eldist hratt og hlutfall fólks á vinnualdri mun fara ört lækkandi á komandi árum. Aukinn fjöldi aldraðra mun kalla á umtalsvert aukin útgjöld ríkisins til heilbrigðis- og velferðarmál auk þess sem ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar hins opinbera nálgast gjalddaga. Á sama tíma eru skuldir ríkissjóðs enn miklar, jafnvel að teknu tilliti til stöðuleikaframlaga, og mun vaxtabyrðin að viðbættum ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum halda áfram að sliga ríkissjóð verði ekki aðhafst.
Ýmis stór mál liggja fyrir á nýju ári. Tryggja þarf farsælt afnám hafta, ná samstöðu um bætt vinnumarkaðslíkan og tryggja aðhald í opinberum rekstri. Sé ætlunin að draga úr vaxtakostnaði þarf að selja eignir og setja skýr og bindandi markmið um aðhald í opinberum rekstri.
Eldri þjóð dregur úr nýliðun á vinnumarkaði og haldi hagkerfið áfram að vaxa í takt við langtímameðal mun það kalla á aukinn fjölda erlendra starfsmanna. Hækkun lífeyrisaldurs til samræmis við auknar ævilíkur og útskrift nemenda úr framhaldsskóla við 18 ára aldur með styttingu námstíma til stúdentsprófs og skólaskyldu frá 5 til 15 ára er til þess fallið að auka bæði framleiðni og nýliðun á vinnumarkaði. Slík breyting, þó til góðs, myndi engu að síður ekki brúa mannaflaþörfina nema að hluta. Auk þess að auðga samfélagið með meiri fjölbreytni og styrkja innlent hagkerfi með vinnu sinni mun fjöldi erlendra starfskrafta breyta ásýnd samfélagsins á komandi árum. Breytingin er í senn óumflýjanleg og eftirsóknarverð en kallar á skýra stefnu í innflytjendamálum.
Hér að neðan má finna umfjöllun Samtaka atvinnulífsins og skiptist hún í tvo hluta. Í fyrri hlutanum er fjallað um efnahagslega stöðu landsins við upphaf ársins 2016 og þau mál sem samtökin telja að verði í brennidepli á árinu. Í síðari hlutanum er sjónum beint að þeim áskorunum sem við okkur blasa til lengri og skemmri tíma og lagðar fram tillögur til úrbóta.
Hluti 1 – Efnahagsleg staða og málin sem verða í brennidepli (PDF)