Yfirlýsing SA um framhald kjarasamninga

Samtök atvinnulífsins telja ekki forsendur fyrir uppsögn kjarasamninga. Forsendur um aukinn kaupmátt á samningstímanum hafa staðist og launastefna kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands hefur reynst stefnumarkandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu samtakanna sem var afhent á fundi forsvarsmanna SA og viðræðunefndar samninganefndar ASÍ í hádeginu í dag.

Yfirlýsing SA um framhald kjarasamninga 27. febrúar 2018 (PDF)

Í henni kemur eftirfarandi fram:

Samtök atvinnulífsins, og aðildarfyrirtæki þess, hafa staðið við allar sínar skuldbindingar samkvæmt kjarasamningum við aðildarfélög Alþýðusambands Íslands og raunar langt umfram það í ljósi þess að kaupmáttur launa hefur vaxið meira á samningstímanum en nokkru sinni fyrr. Kaupmáttur launa hefur að jafnaði aukist um 20% og kaupmáttur lægstu launa enn meira, um 25%. Það er fordæmalaus kaupmáttaraukning á einu samningstímabili á Íslandi og þó víðar væri leitað.

Kjarasamningar sem gerðir hafa verið undanfarna tólf mánuði eru, að mati Samtaka atvinnulífsins, í samræmi við þá launastefnu sem mótuð var með kjarasamningum aðila. Á framangreindu tímabili hefur samninganefnd ríkisins undirritað kjarasamninga við Læknafélag Íslands, Skurðlæknafélag Íslands og 14 aðildarfélög BHM. Á almennum vinnumarkaði hafa ekki verði gerðir aðrir kjarasamningar en milli Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd einstakra fyrirtækja, og stéttarfélaga sem starfsmenn þeirra eiga aðild að.

ASÍ telur að forsendur hafi brostið og kallar eftir viðbrögðum vegna hins meinta forsendubrests. Að mati Samtaka atvinnulífsins er þeim ófært að bregðast við forsendubresti sem ekki er fyrir hendi.

Í viðræðum aðila undanfarnar vikur hefur komið fram óánægja með rýrnun vinnumarkaðstengdra réttinda og árlega uppfærslu fjárhæðarmarka í tekjuskattkerfinu. Framangreindri óánægju verður einungis mætt af hálfu stjórnvalda og er ekki á færi Samtaka atvinnulífsins að stuðla að áframhaldandi friðarskyldu á vinnumarkaði með breytingum utan áhrifasviðs þeirra.

Á grundvelli rammasamkomulags, dags. 27. október 2015, hafa Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, ASÍ og BSRB náð samkomulagi um launaþróunartryggingu fyrir félagsmenn framangreindra samtaka. Rammasamkomulagið fjallar um mikilvægustu þættina í þróun nýs líkans fyrir gerð kjarasamninga hér á landi. Samtök atvinnulífsins vilja við þetta tækifæri lýsa eftirfarandi yfir í tengslum við það mat á forsendum kjarasamninga sem farið hefur fram í febrúarmánuði 2018.

Launaþróunartrygging fyrir taxtalaunahópa
Með rammasamkomulagi, dags. 27. október 2015, var opinberum starfsmönnum innan raða aðildarfélaga ASÍ og BSRB tryggð launaþróunartrygging. Fyrsti áfangi tryggingarinnar var vegna þróunar fram til nóvember 2016 og var trygging sem nam 1,8% og 1,3% greidd til félagsmanna í aðildarfélögum ASÍ og BSRB hjá ríkinu frá 1. janúar 2017. Annar áfangi, vegna tímabilsins fram til nóvember 2017, mun skila félagsmönnum aðildarfélaga ASÍ og BSRB hjá ríki og sveitarfélögum launaauka og kemur hann til framkvæmdar frá 1. janúar 2018.

Í rammasamkomulaginu segir einnig að aðilar muni þróa nýtt samningalíkan sem gilda muni við gerð kjarasamninga til framtíðar. Jafnframt segir þar að staða taxtalaunahópa á almennum vinnumarkaði verði sérstaklega skoðuð með hliðsjón af launaskriði.

Launaþróunartrygging er einn þáttur í þróun nýs samningalíkans sem ætlað er að skapa umgjörð fyrir gerð næstu kjarasamninga á öllum vinnumarkaðnum, þ.e. bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins eru reiðubúin, við næstu samningsgerð í árslok 2018, til að binda kauptaxta almennra kjarasamninga við launaþróunartryggingu, samhliða því að fyrstu skref verði tekin við uppbyggingu nýs kjarasamningalíkans að norrænni fyrirmynd.

~

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að samningsaðilar hefji undirbúning kjaraviðræðna í maímánuði með það markmið að nýir samningar taki gildi um næstu áramót. Þannig verði fest í sessi bætt vinnubrögð við kjarasamningsgerð, öllum landsmönnum til hagsbóta.