Vörugjöldin út í hafsauga og þó fyrr hefði verið
Það er þjóðþrifaverk hjá ríkisstjórn Íslands að koma almennum vörugjöldum fyrir kattarnef enda hafa þau verið skaðleg neytendum og fyrirtækjum í allt of langan tíma. Vörugjöld hafa verið lögð á ýmsar innfluttar nytjavörur og framleiðslu innanlands allt frá árinu 1971 þegar Ísland gekk í EFTA en vörugjaldakerfið er flókið, órökrétt og ósanngjarnt. Það felur auk þess í sér margvíslega mismunun og hækkar verðlag. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að bæta kerfið en án árangurs. Vörugjöld af matvælum voru t.d. afnumin árið 2007 í viðleitni til að lækka matarverð en árið 2009 voru þau sett á að nýju í óbreyttri mynd en upphæðir tvöfaldaðar enda trú margra að aukin gjöld bæti lífskjör á Íslandi.
Í fjárlagafrumvarpinu 2015 er gert ráð fyrir að almenn vörugjöld falli niður 1. janúar 2015 og mun það skila íslenskum heimilum rúmlega sex og hálfs milljarða króna ávinningi, þar af eru þrír milljarðar vegna niðurfellingar vörugjalda á matvæli. Raunar eru fyrirtæki nú þegar tekin að lækka útsöluverð á raftækjum miðað við áform sem birt hafa verið í fjárlagafrumvarpinu og lækkun vörugjalda því þegar tekin að skila sér til neytenda.
Í dag bera sjónvörp 25% vörugjöld, þvottavélar og bílavarahlutir 20%, salerni, salernispappír og blöndunartæki 15%. Tölvuskjáir sem streyma sjónvarpsútsendingum bera engin vörugjöld – nema þeir hafi HDMI tengi! Bíldekk bera vörugjald (20 kr. á kíló). Þá er byggingarefni hlaðið vörugjöldum nema bárujárn og spónaplötur enda vinsælt byggingarefni á Íslandi. Margar fleiri vörur mætti nefna.
Á síðasta ári var innheimtukerfi vörugjalda af matvælum umturnað með ærnum tilkostnaði með það að markmiði að skattleggja allan sykur sem ofan í fólk fer. Kerfið er flókið og kostnaðarsamt í framkvæmd en engin gögn eru til sem benda til að skattlagningin hafi áhrif á neysluna. Með breyttum neysluháttum hefur sykurneysla smám saman dregist saman á undanförnum áratugum óháð álagningu vörugjalda á sykruð matvæli og er nú að meðaltali innan þeirra marka sem ráðlagt er. Allir vita að óhófleg sykurneysla er engum holl né óhófleg neysla annarra matvæla en vilji menn reyna að koma böndum á offitu með skattlagningu væri nær að reyna að skattleggja ofát.
Sorgarsaga vörugjaldakerfisins er rakin ítarlega í úttekt SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu sem kom út árið 2012. Skýrsluna má nálgast hér að neðan, en nóg hefur verið skrifað um gjöldin, það er komið að því að fella því niður. Gjöldin voru sett á árið 1971 til að bæta íslenska ríkinu upp tekjutap vegna niðurfellingar á tollum við inngönguna í EFTA. Það er orðið tímabært að íslensk heimili fái að njóta ávinningsins rúmlega fjórum áratugum síðar en sambærileg skattlagning þekkist ekki annars staðar á Norðurlöndunum.
Tengt efni: