Vörður og Samkaup hljóta Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2021

Hvatningarverðlaun jafnréttismála voru afhent 30. nóvember kl. 08:30 á rafrænum morgunfundi um jafnréttismál í Hátíðasal Háskóla Íslands. Að verðlaununum standa Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands.

Líkt og undanfarin ár voru veitt verðlaun á sviði kynjajafnréttis, en í ár voru einnig veitt sérstök verðlaun með áherslu á annars vegar fjölmenningu og hins vegar starfsfólk með skerta starfsgetu.

Markmiðið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála er að vekja athygli á fyrirtækjum, sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til þess að gera slíkt hið sama. Stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja sem skapað hafa góða fyrirtækjamenningu þar sem jafnrétti og virðing fyrir fjölbreytileika samfélagsins liggur til grundvallar voru hvattir til að senda inn tilnefningu í umsóknarferlinu.

Dómnefnd Hvatningarverðlauna jafnréttismála veitti Verði hvatningarverðlaun jafnréttismála á sviði kynjajafnréttis árið 2021. Vörður hefur unnið markvisst að jafnrétti innan fyrirtækisins undanfarin ár. Félagið hefur einsett sér að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum í íslensku atvinnulífi og hvatt aðra til hins sama. Félagið hefur hlotið 10 af 10 mögulegum á GemmaQ kynjakvarðanum. Þá hefur félagið lagt sig fram við að fá vottanir og innleiða hugbúnaðarlausnir sem stuðla að auknu jafnrétti. Félagið telur að starfshættir þess stuðli að sanngirni og jafnrétti þar sem áherslan á jafnan rétt kvenna og karla sé sýnileg í allri starfseminni. Þá er það einnig markmiðið að útrýma kynbundinni mismunun, sé hún til staðar, og stuðla að jafnræði og mannréttindum í hvívetna. Loks hefur félagið sett sér metnaðarfull markmið í jafnréttismálum til framtíðar.

„Við erum að springa úr hamingju yfir þessu. Við erum stolt, við erum auðmjúk, við erum þakklát Samtökum atvinnulífsins og Háskólanum fyrir að veita þessi verðlaun. Þau eru ótrúleg hvatning. Við erum hvergi nærri hætt. Þetta er í erfðaefninu okkar og bæði í vatns- og kaffivélinni á okkar vinnustað. Við höldum áfram veginn ötul. Það er fullt af tækifærum,“ segir Harpa Víðisdóttir, mannauðsstjóri Varðar.

Þá veitti dómnefnd Hvatningarverðlauna jafnréttismála Samkaupum hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2021, bæði á sviði fjölmenningar og atvinnumála starfsmanna með skerta starfsorku. Samkaup hafa sett sér stefnu, skýran tilgang og markmið í jafnréttismálum, þar á meðal í málefnum starfsmanna af erlendum uppruna og starfsmanna með skerta starfsgetu. Fyrirtækið hefur lagt af stað í vegferð sem kallast Jafnrétti fyrir alla - Samkaup alla leið og hefur gert samsstarfssamninga við þrjú samtök sem starfa í þágu hópa innan starfsmanna félagsins, en það eru Samtökin '78, Þroskahjálp og Mirra, rannsóknar- og fræðslusetur fyrir erlent starfsfólk.

Fyrirtækið leggur áherslu á forvarnir og fræðslu til starfsmanna á margbreytileika fólks til að útrýma hvers kyns fordómum. Þá hafa verið innleiddir skýrir mælikvarðar á árangur í jafnréttismálum og er þeim fylgt eftir með reglulegum hætti.

 „Fyrir hönd Samkaupa vil ég fyrst segja takk kærlega fyrir þessa viðurkenningu. Við munum svo sannarlega nýta þetta áfram sem hvatningu inn í okkar vegferð. Jafnrétti fyrir alla er ákvörðun. Samkaup alla leið,“ sagði Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flutti ávarp á verðlaunaafhendingunni. „Jafnrétti í nútímalegum skilningi á ekki einungis við um kyn heldur mjög marga aðra þætti. Jafnrétti á vinnustöðum snýst fyrst og fremst um fjölbreytileika og atriði eins og fjölmenning og aldursskipting í starfsmannahóp, atvinnuþátttaka minnihlutahópa, t.d. þeirra sem eru með skerta starfsgetu, þetta skiptir allt máli. Ávinningurinn af fjölbreytileika á vinnumarkaði er ótvíræður,“ sagði Áslaug.