Vonir og væntingar á nýju ári

ViðskiptaMogginn fjallar um það í vikunni hvernig styrkja megi atvinnulífið á nýju ári. Styrking íslensku krónunnar, friður á vinnumarkaði, lækkun tryggingagjalds, hófleg eftirlitsgjöld og afskipti hins opinbera eru allt atriði sem eru ofarlega í huga framkvæmdastjóra hagsmunasamtaka í atvinnulífinu, þegar spurt er hvað stjórnvöld geti gert á nýju ári til að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja á Íslandi.

Rætt er m.a. við Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóra SA, sem hafði þetta að segja um verkefni ársins 2017.

 „Það er meginverkefni stjórnvalda að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Það hefur þeim mistekist hrapallega í áranna rás og nú fara áhyggjur vegna stöðu mála sívaxandi. Ofris krónunnar og horfur á frekari styrkingu hennar kippir rekstrargrundvelli undan útflutningsatvinnuvegunum. Atvinnulífið kallar eftir aðgerðum stjórnvalda til að stöðva gengisstyrkinguna og þar er lækkun vaxta og minnkun vaxtamunar gagnvart útlöndum efst á blaði.

Losa verður fjármagnshöftin sem allra fyrst. Aðstæður eru fyrir hendi og engin ástæða er til að draga lengur afléttingu hafta af útflæði gjaldeyris, enda stuðla þau að styrkingu krónunnar.

Ísland er háskattaland. Hið opinbera tekur til sín hærra hlutfall af verðmætasköpun landsmanna en í flestum nálægum ríkjum (lífeyrismál undanskilin), en einungis í Danmörku og Svíþjóð eru skattar hærri.

Í stað þess að velta fyrir sér enn frekari skattahækkunum er æskilegra að stjórnvöld beini áherslum sínum að því að draga úr opinberum umsvifum, lækka skatta og bæta nýtingu fjármuna, t.d. með hagnýtingu fjölbreyttra rekstrarforma og aukinni samkeppni við veitingu opinberrar þjónustu.

Þung reglubyrði bitnar á samkeppnishæfni atvinnulífsins. Atvinnulífið kallar eftir aukinni hagkvæmni opinbers eftirlits með samræmingu og einföldun án þess að dregið sé úr efnislegum kröfum eða öryggi.“

Sjá nánar í ViðskiptaMogganum 29. desember 2016.