Vonbrigði með vaxtaákvörðun
Á vaxtaákvörðunarfundi í morgun tilkynnti peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands óbreytta stýrivexti. Ákvörðunin kemur á óvart. Ekki síst vegna þess að vextir voru lækkaðir á síðasta fundi nefndarinnar og horfurnar hafa batnað síðan.
Batnandi verðbólguhorfur og minnkandi verðbólguvæntingar markaðsaðila eru einar og sér gild rök fyrir vaxtalækkun. Við bætist hverfandi útlánavöxtur og aukinn þjóðhagslegur sparnaður. Þótt krónan hafi veikst lítillega milli funda nefndarinnar má fyrst og fremst rekja þá þróun til verkfalls sjómanna sem að öllum líkindum gengur til baka. Helstu rök bankans fyrir óbreyttum vöxtum er óvissa í kjaramálum og aukin umsvif í þjóðarbúskapnum. Þessir þættir lágu þó fyrir við síðustu vaxtaákvörðun, þegar vextir voru lækkaðir um 0,25%, og sætir því furðu að ekki sé talið rétt að lækka vexti nú.
Seðlabanki Íslands starfar samkvæmt 2,5% verðbólgumarkmiði. Frá febrúar 2014 hefur verðbólga að meðaltali mælst 1,75% (verðbólga án húsnæðisliðar 0,18%) og því haldist töluvert undir markmiðinu allan þann tíma. Þrátt fyrir það eru vextir svipaðir og þegar verðbólgan fór undir markmiðið fyrir þremur árum. Í nýjustu verðbólguspá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólgan verði áfram undir markmiðinu fram á seinni hluta ársins 2018.
Það er mat Samtaka atvinnulífsins að neikvæð áhrif hávaxtastefnu Seðlabankans á innlent efnahagslíf fái of litla umfjöllun. Hár fjármagnskostnaður dregur úr möguleikum til nýsköpunar og kæfir fjárfestingu í fæðingu. Mikill vaxtamunur við útlönd er varasamur og hefur knúið Seðlabankann til að setja höft á innstreymi fjármagns í stað þess að ráðast að rót vandans sem eru háir vextir. Rétt er að hafa í huga að raunstýrivextir eru einna hæstir á Íslandi meðal allra OECD og BRIC ríkja.
Eitt hlutverk Seðlabankans er að hafa áhrif á væntingar almennings og markaðsaðila og gegnir hann lykilhlutverki í miðlun vaxta. Ákvörðun peningastefnunefndar var ekki gott dæmi um vel heppnaða væntingastjórnun og í hrópandi ósamræmi við rökstuðning í fyrri yfirlýsingum hennar. Samræmis verður að gæta í ákvörðunum Seðlabankans svo stefnan sé skýr og gagnsæ. Peningastefnunefnd virðist hafa fallið á því prófi nú í morgun en vonandi er það ekki ávísun á það sem koma skal.