Vísbending um að störfum kunni að fjölga á næsta ári
Ný könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja SA gefur til kynna að störfum á almennum vinnumarkaði gæti fjölgað á næsta ári. Langflestir stjórnenda (59%) búast þó við óbreyttum starfsmannafjölda í sínum fyrirtækjum næstu 12 mánuðina. 22% fyrirtækja hyggjast fjölga starfsfólki á næstu 12 mánuðum en 19% hyggjast fækka starfsfólki. Staða atvinnugreina er misjöfn en gangi þetta eftir má segja að þróunin hvað varðar fjölda starfa sé í rétta átt eftir erfiða niðursveiflu og stöðnun. Störfum á almennum vinnumarkaði 2012 virðist hafa fækkað og launagreiðslur sem nema um þremur milljörðum króna hafi fallið niður.
Á meðfylgjandi töflu má sjá yfirlit yfir starfsmannaáform fyrirtækja eftir atvinnugreinum á næstu 12 mánuðum.
Smelltu á myndina til að stækka ...
Í sjávarútvegi gera fjögur af hverjum tíu fyrirtækjum ráð fyrir að fækka starfsfólki, 53% ráðgera engar breytingar á starfsmannafjölda en aðeins 7% búast við fjölgun. Einnig búast fleiri verslunar- og þjónustufyrirtæki við að fækka starfsfólki.
Í öðrum atvinnugreinum búast fleiri fyrirtæki við fjölgun starfsmanna en fækkun þeirra. Einkum hafa ferðaþjónustufyrirtæki uppi áform um fjölgun starfsmanna en rúmur þriðjungur þeirra hyggst fjölga starfsfólki en aðeins 7% fækka. Þessar niðurstöður eru almennar vísbendingar um að störfum á almennum vinnumarkaði gæti fjölgað á næsta ári.
Störfum á almennum vinnumarkaði virðist hafa fækkað 2012
Í könnuninni var einnig spurt um áætlaðar breytingar á starfsmannafjölda fyrirtækjanna á árinu. Niðurstöðurnar, vegnar saman með stærð fyrirtækja og hlutfallslegu vægi atvinnugreina, gefa til kynna að starfsmönnum á almennum vinnumarkaði fækki um 0,3% á árinu 2012 í þeim atvinnugreinum sem fyrirtækin starfa í, en það samsvarar tæplega 500 störfum. Fjöldi starfandi í umræddum atvinnugreinum er um 87.000 samtals á þessu ári og nemur brottfall launagreiðslna vegna fækkunar þessara starfa um þremur milljörðum króna.
Hér að neðan má sjá yfirlit yfir breytingar á starfsmannafjölda fyrirtækja eftir atvinnugreinum á árinu 2012.
Niðurstöðurnar gefa til kynna að álíka mörg fyrirtæki hafi fjölgað og fækkað starfsmönnum (22-23%) en að í meirihluta þeirra (55%) hafi starfsmannafjöldi verið óbreyttur. Í sjávarútvegi og iðnaði fækkuðu fleiri fyrirtæki starfsfólki en fjölguðu en í veitustarfsemi, ferðaþjónustu og fjármálaþjónustu fjölguðu fleiri fyrirtæki starfsfólki en fækkuðu. Í verslun og þjónustu fjölguðu jafnmörg fyrirtæki starfsfólki og fækkuðu.
Könnunin fór fram dagana 9.-16. október 2012. Svör bárust frá 516 fyrirtækjum þar sem starfa um 35.000 starfsmenn. Framkvæmd könnunarinnar var í höndum Outcome og er hún hluti af reglulegum könnunum Samtaka atvinnulífsins meðal félagsmanna SA.