Virk samkeppni ein af forsendum norræna velferðarkerfisins
Samkeppniseftirlit Íslands, Danmerkur, Finnlands, Grænlands, Noregs og Svíþjóðar hafa lagt mat á það hvaða áhrif efnahagsþrengingar, nú og á síðustu öld, hafa haft á samkeppnisstefnu þjóða og hvaða ályktanir megi draga af þeim áhrifum. Þar sem Norðurlöndin búa við tiltölulega lítil og opin efnahagskerfi er alþjóðleg samkeppnishæfni landanna nauðsynleg til að vernda og viðhalda hinu norræna velferðarkerfi. Hagvöxtur og nýsköpun er ein af forsendum þess að varðveita og auka megi þá samkeppnishæfni. Því takmarki verður best náð með því að stuðla að virkri samkeppni. Þetta kemur fram í nýrri sameiginlegri skýrslu fyrrgreindra stofnana sem var nýverið kynnt í Reykjavík.
Í fréttatilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að virk samkeppni sé mikilvæg til þess að hraða efnahagsbata og mynda grundvöll fyrir atvinnusköpun og hagsæld. Það sé sérstaklega mikilvægt á tímum efnahagsþrenginga að standa vörð um samkeppnina og beita í því skyni virkum og ströngum samkeppnisreglum. Lausnin á efnahagskreppum felist ekki í því að draga úr eða milda eftirlit með samkeppnishömlum.
Í skýrslunni kemur fram að vegna fjármálakreppunnar sé hætta á ýmis konar röskun á samkeppni. Þá er fjölgun gjaldþrota líkleg til að leiða til aukinnar samþjöppunar m.a. í atvinnugreinum þar sem samþjöppun var mikil fyrir. Við samrunaeftirlit er líklegt að í auknum mæli muni reyna á mat á því hvort samruni fyrirtækja sé eini kosturinn sem völ er á þegar fyrirtæki eiga í rekstrarörðugleikum (e. failing firm defense). Samkeppniseftirlitin munu vera sveigjanleg í meðferð brýnna samrunamála og hraða málsmeðferð, en munu ekki beita vægara mati á samkeppnislegum áhrifum samruna.
Við ríkjandi aðstæður telja samkeppnisyfirvöld að fyrirtæki kunni að hafa hvata til að grípa til aðgerða sem takmarka eða eyða samkeppni, svo sem með ólögmætu samráði eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu, og verði að bregðast við slíku. Þegar aðgerðir stjórnvalda leiða til þess að hið opinbera eignast fyrirtæki og hefur þar með starfsemi á samkeppnismörkuðum, með beinum eða óbeinum hætti, verði að lágmarka eins og kostur er samkeppnishindranir sem stafa af ríkisstyrkjum og tryggja að slík fyrirtæki séu skilin frá öðrum opinberum rekstri og starfi á almennum rekstrarlegum forsendum.
Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins segir enn fremur:
"Af fjármálakreppum fyrri tíðar má læra að aðgerðir sem miða að því að viðhalda og efla virka samkeppni stuðla að því að þjóðir vinni sig hraðar en ella upp úr efnahagslægðum. Einnig má sjá að aðgerðir sem fela í sér samkeppnishömlur hindra efnahagslegan bata og draga kreppur á langinn. Fyrri efnahagskreppur geyma dæmi um að gripið hafi verið til verndarstefnu og veikingar á samkeppnisreglum með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum efnahagsáfalla. Rannsóknir sýna hins vegar að slíkar aðgerðir hafa haft þveröfug áhrif, þ.e. dregið niðursveifluna á langinn. Með vísan í þessa reynslu leggja norrænu samkeppniseftirlitin höfuðáherslu á að í aðgerðum sem ætlað er að takast á við efnahagskreppuna verði höfð hliðsjón af áhrifum þeirra á samkeppni. Slíkt verði gert strax frá upphafi þannig að ekki þurfi að vinda ofan af aðgerðum sem skaða samkeppni til langvarandi tjóns fyrir neytendur og þjóðfélagið í heild."