Vinnustaðanámssjóður í lykilhlutverki
Vinnustaðanámssjóður er mikilvægur en með tilkomu hans var fyrirtækjum gert kleift að taka við fleiri nemum í iðn- og verknám en áður. Sjóðurinn hefur reynst litlum og meðalstórum fyrirtækjum í fjölbreyttum atvinnugreinum einstaklega vel, ekki síst í ört vaxandi ferðaþjónustu þar sem þörfin fyrir aukna menntun starfsfólks er mikil. Það eru því mikil vonbrigði að í fjárlagafrumvarpinu sé ekki lengur gert ráð fyrir framlögum til sjóðsins.
Aðilar vinnumarkaðarins hafa hvatt ráðherra til að beita sér fyrir því að sjóðurinn verði starfræktur áfram enda hefur hann nýst nemendum vel ekki síður en atvinnulífinu. Það er áhyggjuefni að hvergi í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að efla vinnustaðanám, t.d. í gegnum skattkerfið eða skólakerfið. Nálgun mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem birtist í fjárlagafrumvarpinu er í ósamræmi við ágætar áherslur ráðuneytisins í Hvítbók um iðn- og starfsnám.
Þetta og að loka framhaldsskólum fyrir nemendum sem eru 25 ára og eldri mun hafa mikil áhrif á atvinnulífið. Ákvörðunin var tekin án samráðs við aðila vinnumarkaðarins og kom þeim í opna skjöldu. Lokunin mun hafa afleiðingar m.a. fyrir iðn- og starfsnámsnema en stór hópur þeirra er eldri en 25 ára. Óvíst er hvort og hvar þeir geta stundað nám.
Í máli menntamálaráðherra hefur komið fram að úrræði fyrir 25 ára og eldri verði tryggð eftir öðrum leiðum. Þær leiðir hljóta að leiða þá einstaklinga sem hyggja á bóknám inn í frumgreinadeildir skóla eins og Bifrastar, HR og Keilis þótt hvergi sé hægt að finna því stað í fjárlagafrumvarpinu. Hins vegar hlýtur leiðin að liggja í framhaldsfræðsluna sem m.a. aðilar vinnumarkaðarins hafa átt góða samvinnu um að byggja upp á síðustu misserum í gegnum Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, þótt engar umræður um breytingar í þá veru hafi átt sér stað.
Vel kann að vera að rétt sé að marka þá stefnu til framtíðar að framhaldsskólar landsins verði fyrst og fremst ætlaðir ungu fólki þótt það leiði m.a. til takmörkunar á aðgengi eldra fólks að formlegu námi á landsbyggðinni. Grundvallarbreytingar sem þessar eru hins vegar ekki tímabærar meðan óljóst er hvernig komið er til móts við þá sem fara snemma út á vinnumarkaðaðinn en sjá m.a. síðar að starfsmenntun hentar vel til að efla sig og styrkja. Ekki síður eru þessar breytingar ótímabærar vegna þess að ekki er búið að minnka að ráði brotthvarf úr framhaldsskólum. Það mun taka nokkur ár líkt og kemur fram í Hvítbók ráðherra.
Með þessum tveimur ákvörðunum sem birtast í fjárlagafrumvarpinu er verið að takmarka tækifæri ákveðins hóps nemenda til náms. Jafnframt er unnið þvert gegn óskum atvinnulífsins um samstarf við uppbyggingu menntakerfisins, þ.m.t. vinnustaðanáms sem og fullorðinsfræðslunnar og möguleg verkefni hennar.
Samtök atvinnulífsins ítreka vilja til samstarfs við stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila um nauðsynlegar breytingar á menntakerfi landsins, samfélaginu öllu til hagsbóta.