Vinnumarkaður í vanda
Íslenska þjóðin eldist og viðvörunarljós loga á vinnumarkaði. Á næsta áratug er útlit fyrir að starfsfólki á vinnumarkaði fjölgi aðeins um fjórðung af fjölgun undangengins áratugar. Að óbreyttu tekur við samdráttur á vinnumarkaði eftir þann tíma þó svo að áfram sé gert ráð fyrir umtalsverðum aðflutningi erlendra starfsmanna til landsins. Ástæðan er sú að þeir árgangar sem koma inn á vinnumarkaðinn eru litlu stærri en þeir sem fara út af honum vegna aldurs og mikillar örorkubyrði. Hlutfall fólks á Íslandi sem hefur horfið af vinnumarkaði vegna örorku er meðal þess hæsta sem þekkist. Að óbreyttu verður því erfitt að manna ný störf sem mun hamla fjárfestingum og hagvexti hér á landi á komandi árum.
Örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Á hverju ári eru 1.200-1.500 manns úrskurðaðir með svokallaða 75% örorku sem veitir rétt til varanlegs örorkulífeyris en heildarfjölgun öryrkja er minni, eða um 600-800 manns á ári. Árið 1993 voru örorkulífeyrisþegar 4,5% af íbúum á vinnualdri en árið 2013 voru þeir 9%. Hlutfall örorkulífeyrisþega hefur þannig tvöfaldast á síðustu tveimur áratugum.
Árlegur kostnaður ríkis og lífeyrissjóða vegna örorkubyrðar er áætlaður 55 milljarðar króna á þessu ári. Greiðslur ríkisins eru áætlaðar rúmir 40 milljarðar og lífeyrissjóðanna 14-15 milljarðar. Þessi útgjöld hafa tvöfaldast á föstu verðlagi á undanförnum 15 árum.
Þrátt fyrir svona mikla örorkubyrði ver ríkissjóður nánast engum fjármunum til starfsendurhæfingar. Stjórnvöld hafa ekki staðið við sín framlög sem samið var um milli aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga og fest voru í lög um tryggingagjald. Starfsendurhæfing er árangursrík leið til þess að koma í veg fyrir að fólk falli út af vinnumarkaði og að ná því aftur út á vinnumarkaðinn hafi það staðið utan hans um tíma. Nágrannaþjóðir okkar hafa gert sér grein fyrir þessu því ríkissjóðir Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs verja 0,2% af landsframleiðslu til starfsendurhæfingar en það samsvarar fjórum milljörðum íslenskra króna. Finnar og Hollendingar verja enn meiri fjármunum til þessarar fyrirbyggjandi starfsemi.
Ekkert þeirra ríkja sem Íslendingar bera sig saman við verja hærra hlutfalli til greiðslu örorkulífeyris en Ísland. Árið 2011 varði ríkissjóður Íslands 2,0% og lífeyrissjóðirnir 0,6% af landsframleiðslu til greiðslu örorkulífeyris, eða samtals 2,6% af landsframleiðslu. Vegna sérstakrar hækkunar örorkulífeyris síðan þá, og fjölgunar örorkulífeyrisþega, má ætla að þetta hlutfall verði komið í eða yfir 3% á þessi ári. Til samanburðar verja Danmörk og Noregur 2,1-2,5% af landsframleiðslu til greiðslu örorkulífeyris, Finnar 1,9% og Svíar 1,4%.