Vindhögg
Grein formanns Eflingar í Fréttablaðinu í gær var mikið vindhögg. Þar sakar hún aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og SA um að hlunnfara launafólk vísvitandi og heldur því fram að SA sé ekki treystandi til að starfa samkvæmt lögum og kjarasamningum.
Í greininni er því haldið fram að SA hafi meðal annars „ráðist gegn einni af mikilvægustu forsendum gildandi kjarasamnings“ og SA gerð upp sú afstaða að þau standi á einhvern hátt í vegi fyrir því að settar séu refsingar eða sektarheimildir á þá atvinnurekendur sem gerast sannanlega uppvísir að því að uppfylla ekki kröfur um lágmarkskjör launamanna.
Hið rétta er að bæði SA og Alþýðusambandið tóku þátt í starfi samstarfshóps félagsmálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Hópurinn skilaði tillögum í janúar 2019. Ein af tillögum hópsins var að lögfesta refsiábyrgð lögaðila og fyrirsvarsmanna til að fyrirbyggja alvarleg og ítrekuð brot gegn launþegum.
Við gerð Lífskjarasamningsins vorið 2019 var áréttað af hálfu stjórnvalda að heimildir til refsinga yrðu auknar vegna vanefnda við að uppfylla kröfur um lágmarkskjör. Unnið var að viðamiklu frumvarpi í vetur sem leið með aðkomu aðila vinnumarkaðarins og voru væntingar um að frumvarp yrði tilbúið og lagt fram á á vorþingi.
Það náðist ekki, meðal annars vegna heimsfaraldurs COVID-19, sem setti svip sinn á afgreiðslu mála á Alþingi, en ekki síður vegna kröfu ASÍ um allt aðra útfærslu viðurlaga en samþykkt hafði verið í samráðshópi ráðherra fáeinum mánuðum fyrr. Það var því stefnubreyting ASÍ sem lagði stein í götu frumvarpsins, en ekki afstaða SA sem er og hefur ávallt verið skýr og í anda þess sem samkomulag var um.
Samtök atvinnulífsins hafa alla tíð lagt sín lóð á vogarskálarnar við umbætur á kjörum og aðbúnaði vinnuafls á Íslandi og tekið þátt í eftirliti með því að kröfur séu uppfylltar. SA hafa hvergi skorast undan í þeim efnum. Fullyrðingar um annað eiga sér enga stoð í veruleikanum.
Formaðurinn ætti að líta sér nær í ádeilu sinni á atvinnurekendur.
Við hjá SA og aðildarfyrirtækjum samtakanna berum virðingu fyrir lögum og vönduðum vinnubrögðum. Við höfum þá vinnureglu að spyrja yfirvegaðra spurninga og ástunda málefnalega umræðu en skjóta ekki stefnulaust út í myrkrið.
Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að við stillum saman strengi og tökumst sameiginlega á við það ærna verkefni sem fram undan er á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku samfélagi.
Það væri öllum til hagsbóta.
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 19. ágúst.