Víglundur Þorsteinsson - kveðja frá SA

Víglundur Þorsteinssonar var atkvæðamikill í forystusveit samtaka atvinnurekenda á síðustu tveimur áratugum síðustu  aldar. Hann tók við  starfi framkvæmdastjóra BM-Vallár árið 1971,  þá  innan við þrítugt, og gegndi því í tæp 40 ár.

Árið 1978 var hann kjörinn í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda og starfaði þar til ársins 1991, þar af síðustu níu árin sem formaður. Víglundur var kjörinn í framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands (forvera Samtaka atvinnulífsins) á aðalfundi 1983. Það hefur ugglaust verið afar sérstakt að koma að gerð kjarasamninga við þær óvenjulegu aðstæður sem þá ríktu í þjóðfélaginu. Verðbólgan var liðlega 80% og vítahringur verðbólgu, kauphækkana og gengislækkana hafði verið allsráðandi um langa hríð.

Víglundur vildi breyta þessu og skapa betri aðstæður fyrir atvinnureksturinn í landinu. Það var hans hugsjón sem hann brann fyrir og taldi það ekki eftir sér að bjóða krafta sína við gerð kjarasamninga til að ná því markmiði.  Reynsla hans og þrautseigja naut sín vel þar sem tekist var á um kaup og kjör og möguleika fyrirtækjanna að standa undir auknum útgjöldum. Miklar efnahagssveiflur einkenndu flest þessara ára og erfitt var að ná niðurstöðu í kjarasamningum sem atvinnulífið gæti borið og tryggja um leið sæmilega sátt í þjóðfélaginu.

Víglundur var ávallt mjög virkur í starfi Vinnuveitendasambandsins, tók fljótlega sæti í forystusveit þess og sat  í stjórn til 1998. Í þá daga gátu samningafundir verið mjög langir og var ekki spurt um hvíldartíma í lengstu samningalotunum í Karphúsinu. Víglundur var ætíð ötulastur stjórnarmanna VSÍ í þessum viðræðum. Hann lá ekki á liði sínu við að gæta hagsmuna atvinnulífsins og leita um leið  lausna í erfiðum deilumálum.   

Þekking Víglundar á starfsemi almennu lífeyrissjóðanna mjög yfirgripsmikil, en hún er byggð á kjarasamningi SA og ASÍ um lífeyrismál. Samtök atvinnurekenda tilnefndu Víglund til starfa í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna árið 1986 og átti hann þar sæti til ársfundar sjóðsins 2007, þar af sem formaður stjórnar í mörg ár. Þá sat hann í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða frá stofnun þeirra 1998 til ársins 2007.  Þessum trúnaðarstörfum, og öðrum sem honum voru falin af hálfu samtaka atvinnurekenda, gegndi hann af  alúð og trúmennsku.  Víglundur setti mikinn svip á öll verkefni sem hann kom að.

Að leiðarlokum þökkum við, fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, Víglundi fyrir umfangsmikil,  heilladrjúg og ósérhlífin störf í þágu samtakanna og forvera þeirra, en ekki síst fyrir að bera ætíð hagsmuni atvinnulífsins og fyrirtækja landsins fyrir brjósti. Fáir gerðu sér betur grein fyrir því að velgengni fyrirtækjanna er samofin hag starfsmanna þeirra. Á kveðjustund sendum við fjölskyldunni  innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Víglundar Þorsteinssonar.                

Eyjólfur Árni Rafnsson.

Halldór Benjamín Þorbergsson