Viðkvæm staða í byggingariðnaði
Mörg fyrirtæki í byggingariðnaði eru í viðkvæmri stöðu. Þetta kemur fram í umfjöllun fréttastofu Ríkisútvarpsins. Þótt dregið hafi úr atvinnuleysi í bygginga- og verktakastarfsemi síðustu mánuði hafa forráðamenn fyrirtækja í greininni áhyggjur af stöðunni í vetur, því fá verkefni séu framundan, sérstaklega hjá hinu opinbera. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA tekur undir þessar áhyggjur.
Hann segir í samtali við RÚV að það séu helst Vaðlaheiðargöngin sem komin séu af stað. Samgönguframkvæmdir út frá höfuðborginni, tvöföldun Suðurlands- og Vesturlandsveg hafi ekki gengið eftir. Vilhjámur segir að ekki einu sinni hafi verið hægt að koma nýrri samgöngumiðstöð í gagnið sem þó sé ekki mikil framkvæmd. Hann nefnir líka að engar framkvæmdir séu hafnar við háskólasjúkrahús eða nýtt fangelsi. Mikið hafi verið talað en ekkert gerist þrátt fyrir yfirlýsingar.